„Algjör plága“ í pósthólfum Íslendinga

Forstjóri netöryggissveitarinnar CERT-IS segir að svikaskilaboð sé veruleiki sem þurfi …
Forstjóri netöryggissveitarinnar CERT-IS segir að svikaskilaboð sé veruleiki sem þurfi að venjast. Samsett mynd

Svikaskilaboð hafa gert vart við sig í SMS-hólfum Íslendinga undanfarnar vikur. Landsmenn hafa margir fengið villandi skilaboð þess efnis að þeir eigi sendingu á pósthúsi en þurfi að gefa upp auka upplýsingar eða greiða gjald til þess að fá sendinguna afhenta.

Guðmundur Arnar Sigmundsson, for­stöðumaður netör­ygg­is­sveit­ar­inn­ar CERT-IS segir að slík skilaboð séu ekki ný af nálinni en að hann hafi tekið eftir aukningu síðustu tvær vikur. Lýsir hann skilaboðunum sem „algjörri plágu“.

Guðmundur Arnar Sigmundsson.
Guðmundur Arnar Sigmundsson. Ljósmynd/Póst- og fjarskiptastofnun.

„Þetta kemur í lotum. Það fjarar svo aðeins undan þessu og síðan kemur þetta aftur. Hver lota er þó aðeins fágaðri en sú sem kom á undan. Þetta verður trúverðugra, þannig það er auðveldara að falla fyrir þessu,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is og biðlar til fólks að tileinka sér „heilbrigða tortryggni“ gagnvart skilaboðum sem skjóta skökku við.

CERT-IS varaði við slíkum skilaboðum í byrjun júlí.

Þrjótar þykjast vera Pósturinn til þess að fá persónuupplýsingar.
Þrjótar þykjast vera Pósturinn til þess að fá persónuupplýsingar. Ljósmynd/Aðsend

Veruleiki sem þarf að venjast

„Ef fólk er að fá skilaboð í textaformi um að það eigi að ýta á einhvern hlekk til þess að greiða hitt eða þetta, þá hvetjum við það í fyrsta lagi til þess að fylgja ekki slóðinni ef það veit ekki hvað þetta er,“ segir Guðmundur.

„Og í öðru lagi, ef fólk á von á sendingu en er ekki visst um skilaboðin, að hafa samband við þjónustuna sem þrjótarnir þykjast vera, t.d. pósthúsið, og spyrja hvort þetta sé rétt.“

Hann segir að þrjótarnir finni flestir símanúmer og netföng úr gagnalekum en einnig séu símanúmer og netföng Íslendinga gjarnan opinberar upplýsingar. Þrjótarnir leggi meiri áherslu á að koma út sem flestum skilaboðum til sem flestra í stað þess að herja á hvern einstakling út af fyrir sig.

„Þeir eru að reyna á fjöldann þegar þeir eru með svona herferðir,“ segir Guðmundur.

„Þetta kemur alltaf reglulega. Þetta er bara veruleikinn sem við þurfum að venja okkur á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert