Þróa nýja aðferð til að mæla bindingu koldíoxíðs

Prófa meðal annars nýja aðferð til að rekja CO2 sem …
Prófa meðal annars nýja aðferð til að rekja CO2 sem fangað er frá Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/Carbfix

Teymi fremstu jarðvísindamanna Skotlands hefur hlotið styrk að fjárhæð einni milljón sterlingspunda, eða um 170 milljónir íslenskra króna, frá breskum stjórnvöldum til að þróa nýja aðferð til að mæla bindingu koldíoxíðs (CO2) í jarðlögum með Carbfix-aðferðinni.

Carbfix hefur frá því árið 2007 þróað aðferð til að binda CO2 varanlega í basaltberglögum neðanjarðar, þar sem það umbreytist á skömmum tíma í steindir. 

Lögð er vaxandi áhersla á mikilvægi þess að fanga og binda CO2 til að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og er það talinn nauðsynlegur liður í að ná markmiðum Parísarsáttmálans.

Greina „fingrafar“ CO2 sameinda

Skosku vísindamennirnir munu í samvinnu við Carbfix prófa nýja aðferð til að rekja CO2 sem fangað er frá Hellisheiðarvirkjun, til viðbótar við þær aðferðir sem þegar er beitt til að staðfesta örugga og varanlega bindingu þess.

Dr. Stuart Gilfillan hjá Edinborgarháskóla og teymi hans munu beita nýrri aðferð til að greina „fingrafar“ CO2 sameinda, en Edinborgarháskóli hefur sótt um einkaleyfi fyrir aðferðina.

Verkefnið nefnist INCLUSION og er samvinnuverkefni Carbfix og SUERC, sem er samstarfsvettvangur skoskra háskóla um rannsóknir á sviði umhverfismála.

Það er rannsóknaráð Bretlands á sviði umhverfis og náttúru, Natural Environment Research Council, sem veitir styrkinn.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert