Vágestir í vistkerfum jarðar valda miklu tjóni

Dæmi um vágesti eru „aðfluttar“ plöntutegundir sem hafa komið sér …
Dæmi um vágesti eru „aðfluttar“ plöntutegundir sem hafa komið sér fyrir í Viktoríuvatni í Suður-Afríku og gert fisktegundum lífið leitt. Ljósmynd/Linda De Volder

Ágengar tegundir lífvera, sem geta eyðilagt uppskerur og skóga, dreift sjúkdómum og reist heilu vistkerfin á rönd, hafa margar dreift úr sér um víða veröld og mannkynið hefur enn ekki náð að stemma stigu við útbreiðslu þeirra.

Tegundirnar, hvort sem um ræðir plöntur eða dýr, valda tjóni sem kostar um 53 billjónir króna á ári – sem er um það bil jafn mikið og þjóðarframleiðsla Danmerkur. Sú upphæð gæti jafnvel verið „gríðarlegt vanmat“, samkvæmt skýrslu IPBES, vett­vangs stjórn­valda og vís­inda­stefnu­mót­un­ar um líffjöl­breytni og vist­kerfi.

IPBES hefur skráð yfir 37.000 tegundir sem hafa komið sér fyrir í heimshlutum langt frá þeirra heimkynnum, og tegundum á þeim lista fjölgar hratt. Þar að auki hefur tjónskostnaðurinn aukist og hefur nánast fjórfaldast á hverjum áratugi, frá árinu 1970.

Aðeins um 17% landa hafa sett lög eða reglugerðir til þess að hindra áhlaup ágengra tegunda. Þegar lífverur setjast að í heimshlutum þar sem þau eiga ekki heimkynni, hvort sem þar er viljandi eður ei, er það alltaf af mannavöldum, segir IPBES.

Efling atvinnulífsins, fólksfjölgun og hnattræn hlýnun „munu auka tíðni og umfang líffræðilegra áhlaupa og áhrif ágengra tegunda,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert