Nýta sjó til varanlegrar bindingar koldíoxíðs

Holutopphús Carbfix.
Holutopphús Carbfix. Ljósmynd/Carbfix

Mikil tímamót urðu hjá Carbfix á dögunum þegar tilraunir hófust í Helguvík um að nýta sjó í stað ferskvatns til varanlegrar bindingar koldíoxíðs (CO2) í berglögum. Tilraunin er nýmæli á heimsvísu og mikilvægt skref í framþróun tækni til kolefnisbindingar.

Verkefnið ber yfirskriftina Sæberg og er samvinnuverkefni Carbfix, ETH í Zurich, Háskóla Íslands, ÍSOR, háskólanna í Genf og Lausanne og University College London. Reykjanesbær er auk þeirra þátttakandi í verkefninu með því að veita Carbfix aðstöðu í Helguvík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Carbfix. 

Sýna fram á fýsileika tækni til föngunar

Verkefnið er hluti af öðru verkefni sem ber yfirskriftina DemoUpCARMA, sem er leitt af ETH Zurich. Markmið þess verkefnis er að sýna fram á fýsileika tækni til föngunar, nýtingar, flutnings og bindingar á koldíoxíð, ýmist til að ná fram neikvæðri kolefnislosun - þ.e. föngun og bindingu úr andrúmsloftinu - eða draga úr losun frá iðnaði svo sem sementsframleiðslu, vistvænni orkuframleiðslu og efnaiðnaði.

Aðferðin sem Carbfix notar til kolefnisbindingar felst í því að leysa koldíoxíð í vatn og dæla því niður í basaltbert þar sem það steinrennur og binst varanlega. Takist að sýna fram á að unnt sé að nota sjó í stað vatns mun það fjölga til muna þeim svæðum þar sem hægt er að beita aðferðinni.

Tilraunir hafa gefið góða raun

Tilraunir á rannsóknastofu, í samstarfi Carbfix og Háskóla Íslands, hafa þegar gefið góða raun, en nú eru tilraunir á vettvangi hafnar í fyrsta sinn. Ferli niðurdælingar og steinrenningar verður rannsakað með margvíslegum vísindalegum aðferðum.

„Sæberg er eitt mikilvægasta rannsókna- og þróunarverkefni okkar. Beita má okkar núverandi tækni víða í heiminum en þessi nýja nálgun getur aukið möguleika hennar verulega,“ er haft eftir Eddu Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, í tilkynningunni. 

„Að komast á þetta mikilvæga stig er afrakstur góðs samstarfs við framúrskarandi samstarfsaðila. Við erum mjög spennt fyrir framhaldinu og einnig stolt af því að Sæbergs-verkefnið hefur nú í tvígang verið frumkvöðull á heimsvísu, eftir tímamótaflutning á CO2 frá Sviss til Íslands sem hófst á síðasta ári. Það mun hafa verið í fyrsta sinn sem kolefni var flutt yfir landamæri til bindingar í jörðu, en niðurdæling á því fór fram með vatni með hefðbundnum hætti á Hellisheiði,“ er haft eftir Einari Magnúsi Einarssyni, verkefnastjóra Sæbergs hjá Carbix, í tilkynningunni. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka