Spá 77% fjölgun nýrra krabbameinstilfella 2050

WHO segir að rekja megi þessa aukningu að mestu leyti …
WHO segir að rekja megi þessa aukningu að mestu leyti til reykinga, áfengis, offitu og loftmengunar. Ljósmynd/Colourbox

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) spáir því að fjöldi nýrra krabbameinstilfella fari yfir 35 milljónir árið 2050, en það er 77% fjölgun miðað við tilfelli fyrir árið 2022. 

Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC), sem heyrir undir WHO, segir að rekja megi þessa fjölgun að mestu leyti til reykinga, áfengis, offitu og loftmengunar. 

Árið 2022 greindust 20 milljónir krabbameinstilfella á heimsvísu. 

IARC segir að hröð fjölgun krabbameinstilfella í heiminum endurspegli bæði hækkandi lífaldur fólks og fólksfjölgun. Þá séu margir berskjaldaðri en áður gagnvart ýmsum áhættuþáttum, en það tengist m.a. félags- og efnahagslegri þróun. 

„Tóbak, áfengi og offita eru lykilþættir sem tengjast fleiri krabbameinstilfellum, auk þess sem loftmengun er áfram lykilþáttur hvað varðar umhverfislegar ógnir,“ segir IARC. 

Reiknað er með að fjölgun tilfella mælist mest í þróuðum ríkjum. Spáð er að tilfellum þar muni fjölga um 4,8 milljónir borið saman við tölur fyrir árið 2022. 

Hlutfallslega séð þá mun fjölgunin verða mest í fátækari ríkjum heims, en í þeim ríkjum er spáð allt að 142% fjölgun nýrra tilfella.

WHO spáir að andlát af völdum krabbameina muni nærri tvöfaldast árið 2050. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert