Risagagnaver Google til Noregs

Nýja gagnaverið á Gromstul í Skien eins og það kemur …
Nýja gagnaverið á Gromstul í Skien eins og það kemur til með að líta út árið 2026. Bygging þess kostar tæpa 88 milljarða íslenskra króna. Tölvuteikning/Google

Bandaríski leitarvélar- og tæknirisinn Google gaf það út í dag að fyrirtækið hyggist byggja og starfrækja eitt stærsta gagnaver heimsins í Skien í norska fylkinu Telemark en Skien, tæplega 60.000 íbúa sveitarfélag, er staðsett eitt hundrað kílómetra suðvestur af höfuðborginni Ósló.

Hefur verinu verið valinn staður á Gromstul, rétt utan við meginþéttbýli sveitarfélagsins, þar sem Google keypti lóð í ágúst 2019, tvo ferkílómetra að flatarmáli, en áætlaður byggingarkostnaður versins er 6,8 milljarðar norskra króna, jafnvirði tæpra 88 milljarða íslenskra króna. Er ráðgert að verið verði starfhæft árið 2026.

4.000 störf við bygginguna

Við bygginguna er gert ráð fyrir að 4.000 störf skapist auk eitt hundrað varanlegra starfa við verið eftir að starfsemi þess hefst. Mun verið hýsa stóran hluta þeirra gagna sem Google heldur utan um í formi mynda, myndskeiða, tónlistar, textaskjala tölvupósts og leitarsögu.

„Dagurinn í dag markar mikil tímamót fyrir okkur hjá Google. Í dag gerum við byggingu nýja gagnaversins okkar hér í Skien heyrum kunna,“ sagði Tine Austvoll Jensen, forstjóri Google í Noregi, á blaðamannafundi í Skien í dag. Sagði hún enn fremur að gagnaver væru heimili lýðnetsins. Því fleiri notendur stafrænna verkfæra sem bættust í hópinn, þeim mun ríkari yrði þörfin fyrir örugga og sjálfbæra innviði til að veita þá þjónustu sem þörf væri fyrir.

Var Karianne Oldernes Tung, ráðherra stafrænnar þróunar, viðstödd fundinn ásamt Marius Roheim Aarvold, bæjarstjóra Skien, Sven Tore Løkslid, fylkisstjóra Telemark, og fleiri norskum stjórnmálamönnum auk þess sem fulltrúar Google í Bandaríkjunum voru á staðnum.

Frystu hálfa tertu

Fréttir af því að gagnaver Google væri hugsanlega á leiðinni í sveitasæluna í Telemark eru ekki nýjar af nálinni enda var það í fréttum þegar Google keypti lóðina árið 2019. Þá átti Google hins vegar eftir að taka ákvörðun um hvort Noregur yrði fyrir valinu.

„Sem sveitarfélag erum við stolt af að hafa orðið fyrir valinu sem gestgjafi þessa stóra verkefnis Google í Noregi,“ sagði Aarvold bæjarstjóri á fundinum og kvað staðsetningu versins styrkja stafræna innviði landshlutans auk þess að skapa ný störf og nýja færni. „Svo ekki sé minnst á að auka alþjóðlegan sýnileika,“ sagði hann enn fremur.

Margir halda og vona að gagnaverið nýja verði atvinnulífi á svæðinu mikilvæg lyftistöng og hornsteinn, ekki síst bæjarstjórnin sem fagnaði lóðarkaupunum árið 2019 með því að borða hálfa tertu. Hinn helmingurinn var frystur og geymdur til þess dags er Google tæki ákvörðunina um að byggja í Skien – það er í dag.

Bölvun eða blessun?

Andstæðingar versins kalla það stórslys fyrir umhverfi og náttúru, meðal annars vegna þeirrar gríðarmiklu raforku sem verið krefjist. Í könnun norska ríkisútvarpsins NRK á viðhorfi íbúa Skien til gagnaversins, sem Norstat framkvæmdi í fyrravor, voru 37 prósent hlynnt, 31 prósent á móti en 24 prósent höfðu ekki skoðun á málinu.

Fólk sem NRK ræddi við á götu í dag talaði meðal annars um að lóðin væri allt of stór og náttúran í hættu, ný störf væru velkomin, nú yrði rafmagnið fokdýrt sem bitnaði verst á bæjarbúum og að Skien þyrfti á þessari uppbyggingu að halda. Sínum augum lítur hver silfrið.

NRK

NRKII (lóðarkaupin árið 2019)

E24

Teknisk Ukeblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert