Hefur engar áhyggur af gervigreind

Annie Leibovitz að lokinni athöfninni.
Annie Leibovitz að lokinni athöfninni. AFP/Miguel Medina

Ljósmyndarinn Annie Leibovitz, var vígð inn í Listaakademíu Frakklands fyrr í vikunni. Hún segir gervigreind enga ógn við fagið sitt, heldur eingöngu enn eitt listræna verkfærið.

Leibovitz er einn frægasti núlifandi ljósmyndari heims og hefur hún fest hinar ýmsu stjörnur á filmu. Dæmi um verk hennar eru ljósmynd af John Lennon halda utan um eiginkonu sína Yoko Ono á rúmi, nokkrum klukkustundum áður en hann var skotinn til bana, mynd af leikkonunni Demi Moore þegar hún var ófrísk og af leiðtogum á borð við Elísabetu drottningu, Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Anna Wintour (til hægri) afhenti Leibovitz sverð við athöfnina.
Anna Wintour (til hægri) afhenti Leibovitz sverð við athöfnina. AFP/Miguel Medina

Verður að taka stökkið

Margir telja að ljósmyndun stafi ógn af gervigreind og þeim myndum sem er hægt að útbúa með hennar hjálp. Leibovitz lítur þvert á móti á þessa nýju tækni sem tækifæri.

„Hún veldur mér alls engum áhyggjum,” sagði hún.

„Þegar ný tækni kemur fram á sjónarsviðið koma upp efasemdir og áhyggjur. Þú verður bara að taka stökkið og læra hvernig á að nota hana.”

Notar Photoshop

Hún segir myndir búnar til með hjálp gervigreindar ekkert síður sannar en ljósmyndir. „Ljósmyndun er í rauninni ekki sönn...mér finnst gott að nota Photoshop. Ég nota öll þau verkfæri sem eru í boði.”

Leibovitz hóf feril sinn árið 1970 hjá tímaritinu Rolling Stone. Auk tónlistartengdra mynda smellti hún einnig myndum af stjórnmálamönnum. Ein þeirra af Richard Nixon, þáverandi forseta, að yfirgefa Hvíta húsið með þyrlu eftir afsögn sína árið 1972, fór eins og eldur í sinu um allan heiminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert