Gætum séð ljósin ef skýin þvælast ekki fyrir

Ljósin sáust víða á himni í Evrópu í nótt en …
Ljósin sáust víða á himni í Evrópu í nótt en ekki sást vel til þeirra á Íslandi. Samsett mynd

Íslendingar gætu í kvöld fengið að sjá norðurljósin sem ljómuðu víða yfir Evrópu í nótt. Það telst samt ólíklegt með tilliti til sumarbirtunnar og þeirrar miklu skýjahulu sem spáð er yfir landinu.

Bleikur himinn ljómaði yfir Evrópu vegna segulstorms að völdum kórónugoss í sólinni. Stormurinn er ekki yfirstaðinn en fjarar sennilega út á næstu dögum, segir stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason, sem er gjarnan kenndur við viðfangsefni sitt.

„Ef svo vill til að einhvers staðar á landinu sjáist í heiðan himinn þá eru mestu líkurnar á því að sjá eitthvað svona um eitt leytið, þegar það er dimmast hjá okkur,“ segir Stjörnu-Sævar í samtali við mbl.is.

Norðurljósin sáust víða í Evrópu.
Norðurljósin sáust víða í Evrópu. Skjáskot/www.foto-webcam.eu
Sævar Helgi Bragason, eða Stjörnu-Sævar.
Sævar Helgi Bragason, eða Stjörnu-Sævar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yrði ekki eins bleikt

Það er aftur á móti orðið frekar bjart á næturnar nú í maí, sem þýðir að það sé erfiðara fyrir Íslendinga að sjá norðurljósin. Bleiki liturinn er jafnframt frekar daufur, sem gerir það að verkum að í sumarbirtunni séu norðurljósin oftar græn en bleik.

„Við njótum þá sýningarinnar minnst fyrir vikið, sem er náttúrulega smá leitt,“ bætir hann við.

Vegna sveigju jarðar horfðu flestir sunnarlega á hnettinum í efsta hluta ljósanna og því eru myndirnar sem fólk tók í nótt svona bleikar.

Skýjahuluspáin er ekki í hag þeim sem vilja sjá himininn …
Skýjahuluspáin er ekki í hag þeim sem vilja sjá himininn í kvöld, nema kannski þeim sem búa á Austurlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Hvað er segulstormur?

Fyrirbærið sem veldur þessari ljósasýningu kallast segulstormur og er þetta sá kröftugasti í 21 ár.

„Segulstormur veður þegar sólin varpar mjög hröðum sólvindi til jarðarinnar og þá verður eins og hvassviðri í geimnum,“ útskýrir Sævar. Sólvindurinn slær síðan á segulsvið jarðar, sem hrekkur síðan til „eins og þvottasnúrur á vinasömum degi,“ segir Sævar.

„Því hraðari sem sólvindurinn er því mun meiri verður stormurinn,“ bætir hann við. Ótt­ast er að segul­storm­in­um geti fylgt marg­vís­leg­ar trufl­an­ir á gervi­hnött­um, GPS-kerf­um og raf­orku­neti næstu daga. 

Norðurljósin í nótt sjást hér í Margate í Kent sem …
Norðurljósin í nótt sjást hér í Margate í Kent sem er á suðausturhluta Englands. AFP/Alice Dhuru
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert