„Hættulegt“ að lauma stórum breytingum í gegn

Vera Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Myndstefs, segir það vera hættulegt þegar reynt …
Vera Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Myndstefs, segir það vera hættulegt þegar reynt er að lauma svo stórum breytingum í gegn líkt og Meta ætlaði að gera. Samsett mynd/AFP/Aðsend

Meta, eigandi Facebook, Instagram og fleiri samfélagsmiðla, greindi frá því í fyrradag að fyrirtækið væri hætt við áform sín um þjálfun gervigreindarforrita fyrirtækisins í Evrópu vegna fjölda kvartana, í bili að minnsta kosti.

Framkvæmdastjóri íslenskra hofundarréttarsamtaka segir það vera hættulegt þegar reynt sé að lauma svo stórum breytingum í gegn án vitundar notenda. 

Áætlanir Meta snerust um að nota myndir og texta á samfélagsmiðlum þeirra allt frá árinu 2007 til þess að þjálfa gervigreind sína – eins konar gagnasópun. 

Notendur samfélagsmiðla Meta höfðu til 26. júní til þess að mótmæla því að upplýsingar þeirra yrðu notaðar, ellegar yrðu gögnin notuð sjálfkrafa í gagnabanka gervigreindarinnar. 

Fyrirtækinu bárust fjölda kvartanir vegna þess, meðal annars frá persónuverndarstofnunum ellefu Evrópuríkja. 

Flókið viðfangsefni 

Myndstef, íslensk samtök sem starfa í þágu rétthafa höfundarréttar, vöktu athygli á gagnasópuninni í vikunni, áður en Meta gerði hlé á áformum sínum.  

Vera Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Myndstefs, segir í samtali við mbl.is að það sé mikilvægt að hafa í huga að gervigreindin geti verið mjög gott tæki til ýmissa verka, svo sem þýðinga, og að hún sé mikilvæg tækniþróun. 

„Þetta er ekki eitthvað alslæmt þannig séð og getur verið virkilega gagnlegt,“ segir Vera og nefnir að gervigreindin síi meðal annars frá óæskilegt efni fyrir suma. 

„En það eru auðvitað ýmsar flækjur í þessu og það sem við vorum svona sérstaklega að benda á er auðvitað tengt því að þarna er verið að taka efni sem getur verið höfundarréttarvarið – sem er okkar fyrsta áhyggjuefni – en svo líka auðvitað persónuverndarupplýsingar og persónulegar upplýsingar notenda. Okkur fannst þetta fljóta bara áfram án þess að nokkur tæki sérstaklega mikið eftir því.“

Því ákváðu samtökin að setja inn færslu á Facebook sem hefur fengið talsverð viðbrögð. Fjöldi fólks hafði samband við Myndstef með beiðni um aðstoð um hvernig ætti að koma í veg fyrir gagnasópunina. 

Fór framhjá mörgum 

„Það virtust ansi margir notendur hafa áhyggjur af þessu, og vilja hafa eitthvað um þetta að segja, sem er auðvitað það sem að persónuverndarlöggjöfin okkar og í Evrópu gerir okkur kleift að gera.“

Vísar Vera þar til GDPR–persónuverndarreglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins frá árinu 2016 sem var innleidd hér á landi árið 2018. 

Kjarninn í henni er að það sé ekki verið að gera eitthvað sem notandinn sé ekki upplýstur um og veitir ekki samþykki fyrir.  

„Fyrir suma getur það alveg verið gott og gilt, „já já þeir mega alveg fá upplýsingarnar mínar og mér er sama um myndirnar sem ég set á Facebook–ið“. En það er algjörlega kjarninn í þessu að notandinn hafi rétt til þess að velja og hafna eftir atvikum ef að viðkomandi vill ekki að sínar upplýsingar séu notaðar með þessum hætti.“

Instagram og Facebook er í eigu Meta.
Instagram og Facebook er í eigu Meta. AFP

En má ekki segja að Meta hafi ekki upplýst notendur nógu vel um gagnasópunina í þessu tilfelli?

„Það fór virkilega framhjá mörgum hef ég heyrt. Ég rétt svo rak augun í litla tilkynningu um að það væri eitthvað að fara breytast, en það var alls ekki farið að vekja rækilega athygli að þessu. Þess vegna fannst okkur full ástæða til þess að reyna að vekja aðeins athygli á þessu máli.“ 

Sniðganga greiðslur 

Vera telur að málið eigi ábyggilega eftir að vera í deiglunni á næstunni og bætir við að það sýni að GDPR–reglugerðin geri sitt gagn. 

Í Bandaríkjunum og á fleiri stöðum er staðan hins vegar önnur. Þar hefur gagnasópunin þegar átt sér stað, þar sem að þar er þessi neytendavernd ekki til staðar. 

Vera nefnir að lokum að mörg höfundarréttarsamtök hafi áhyggjur af því að við þessa gagnasópun sé verið að sniðganga greiðslur fyrir höfundarréttarvarið efni. 

„Svo sjást kannski bara ótvíræð merki þess að einhver tiltekin verk hafi farið inn í þennan búnað og séu svo notuð til þess að búa til önnur verk,“ segir hún og nefnir sem dæmi að hún viti ekki hvaðan gervigreindin sem bjó til myndina sem samtökin birtu með Facebook–færslunni hafi fengið sín gögn. 

Myndina lét Vera búa til með gervigreind. Hún sýnir vélmenni …
Myndina lét Vera búa til með gervigreind. Hún sýnir vélmenni sópa til sín listaverkum. Ljósmynd/Aðsend

„Það er eitthvað sem að flest höfundarréttarsamtök – allavega í Evrópu – og af þeim sem ég hef rætt við vilja að sé leyfisskylt (e. licensed) og fengið leyfi frá notendum áður en þetta er gert. Þess vegna er það hættulegt þegar það er laumað svona stórum breytingum í gegn, án þess að fólk viti og án þess að fólk hafi tækifæri til þess að bregðast við því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert