130 metra djúpur hellir fundinn á tunglinu

Hér má sjá hellismunnann á yfirborði tunglsins en fjórtán ár …
Hér má sjá hellismunnann á yfirborði tunglsins en fjórtán ár eru síðan holrúm fannst undir yfirborðinu með endurvarpsmælingum frá gervitunglinu Lunar Reconnaissance Orbiter. Ljósmynd/NASA

Fimm ítalskir vísindamenn og einn bandarískur hafa uppgötvað gat á yfirborði tunglsins sem þeir segja innganginn að um það bil 130 metra djúpum helli sem auk þess sé hundrað metrar að ummáli.

Lýsa rannsakendurnir fundi sínum í grein í tímaritinu Nature Astronomy og slá því þar fram að hellirinn gæti reynst jarðneskum tunglförum heppilegt skjól og bækistöð þar sem geislavirkni á yfirborði tunglsins næði ekki til þeirra en hún getur orðið allt að 150-föld miðað við geislavirkni á yfirborði jarðar.

Þessi tiltekni hellir er ekki ný uppgötvun, það er hellismunninn hins vegar. Grein fræðimannanna byggir að hluta til á gögnum bandaríska gervitunglsins Lunar Reconnaissance Orbiter en endurvarpsmælingar frá því sýndu þegar árið 2010, svo ekki varð um villst, að holrúm væri að finna undir yfirborðinu. Hluti endurvarpsbylgjanna fór lengra en að yfirborðinu áður en þær köstuðust til baka til gervitunglsins og gáfu þar með til kynna rými undir yfirborðinu.

Æfa hellahreyfingar í Lofoten

„Við erum sannfærðir um að þarna er hellir, en ratsjárgögnin gefa okkur misvísandi upplýsingar um lögun hans,“ segir Francesco Sauro, jarðfræðingur hjá Evrópsku geimferðastofnuninna, ESA, enda hafa vísindamenn á þessum vettvangi raunar lengi vitað af tilvist tunglhella – svo bjargföst hefur sú vissa verið að evrópskir geimfarar hafa þjálfað sig í hreyfingum í slíkum hellum.

Kåre Kullerud, jarðfræðingur á safninu Norsk Bergverksmuseum, hefur komið að þeirri þjálfun sem meðal annars hefur farið fram í Lofoten í Noregi. Er Kullerud einn stjórnenda áætlunar sem kallast Pangea og gengur út á að geimfarar séu í stakk búnir og hafi kunnáttu til að starfa sem eins konar jarðfræðingar á vettvangi, til dæmis á tunglinu.

„Manneskja sem gengur um tunglið er í mun betri stöðu til að kynna sér smáatriði og samhengi í jarðfræðinni en vísindamenn sem fá upplýsingar frá fjarstýrðum tækjum,“ segir Kullerud við norska ríkisútvarpið NRK.

Sjötti hluti þyngdarafls jarðar

Ítalski jarðfræðingurinn Sauro segir mörg hundruð lautir eða lægðir á yfirborði tunglsins og hafi þær myndast við eldvirkni í fyrndinni. Með endurvarpsmælingum megi sjá að margar þeirra tengist holrúmum undir yfirborðinu.

Sauro hefur umfangsmikla reynslu af rannsókn hraunganga á jörðinni og kemur einnig að Pangea-áætluninni, sem leiðbeinandi.

„Þyngdarafl tunglsins er aðeins sjötti hlutinn af þyngdarafli jarðar. Þar með verður allt klifur mun léttara þótt um leið sé það erfiðara vegna hlífðarbúningsins,“ segir jarðfræðingurinn.

Næst á döfinni er að finna hentugan helli til að senda fjarstýrð tæki niður í til rannsókna. Síðar í ferlinu geti mannfólk svo farið niður og framkvæmt nánari athuganir. „Undir yfirborðinu finnst efni sem hefur ekki orðið fyrir stöðugri geislavirkni og árekstrum loftsteina um milljarða ára skeið. Sýni úr slíku umhverfi geta sagt okkur meira um hvernig tunglið myndaðist,“ segir Sauro.

NRK

BBC

Greinin í Nature Astronomy (krefst áskriftar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert