Gríðarlegar sprengingar á sólinni hafa orðið til þess að Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) hefur varað við segulstormi í kvöld og á morgun.
Gæti orðið svo að norðurljós verði áberandi á næturhimni í norðurhluta Bandaríkjanna og í Evrópu á þeim tíma, en talið er líklegast að svo verði í kvöld.
Í maí á þessu ári varð kröftugasti segulstormur sem mælst hefur frá árinu 2003, og sáust norðurljós víða um heim. Ekki er talið að segulstormur þessarar viku verði eins kraftmikill.
Segulstorminum geta fylgt margvíslegar truflanir á gervihnöttum, GPS-kerfum og raforkuneti.
Spáð er talsverðri norðurljósavirkni hér á landi í kvöld, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.
Víða verður þó skýjað, en helst er útlit fyrir að hægt verði að sjá norðurljósin á Norðurlandi. Óvíst er er hvort það nái að verða nægilega dimmt til þess að ljósin sjáist.