Ótrúleg uppgötvun á Mars líkist Íslandi

Mynd tekin úr NASA lendingarfarinu Insight af rykmettuðum sólarplötum þess …
Mynd tekin úr NASA lendingarfarinu Insight af rykmettuðum sólarplötum þess í apríl 2022 tæplega fjórum árum eftir komuna á Mars. AFP

Vísindamenn hafa uppgötvað forðabúr fljótandi vatns á Mars, djúpt í skorpu plánetunnar.

Ný greining á gögnum frá Insight-geimfari NASA, sem lenti á Mars árið 2018, leiðir þetta í ljós. 

Eru niðurstöðurnar birtar í vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences, en BBC greinir frá.

Blaðamaður fékk stjarnvísindaáhugamanninn Sævar Helga Bragason til að skýra þetta út nánar, en hann segir uppgötvunina stórmerkilega.

Gervigígar bara á Íslandi og á Mars

„Hún er merkileg fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta skipti sem við finnum ummerki eða bein merki um fljótandi vatn undir yfirborði Mars.“

Áður hafi fundist merki um árfarvegi, uppþornuð stöðuvötn, merki um höf og strandlínur, jökulfljót og polla og meira að segja gervigíga sem finnast bara á tveimur stöðum í sólkerfinu, á Íslandi og á Mars.

Þetta virðist líka vera talsvert mikið magn af vatni, að sögn Sævars, eða á við risastöðuvötn eða heil höf sem leynast á 11-20 km dýpi. Þar er bergið eldfjallagrjót eins og á Íslandi og það er frekar sprungið og virðist mettað af vatni.

Ekkert ósvipað því sem finnst á Íslandi

„Þarna er bara grunnvatn sem er ekkert ósvipað því sem við finnum á víð og dreif um Ísland undir skorpunni okkar. Það er ákveðin hliðstæða en reyndar á miklu meira dýpi ef út í það er farið.“

Þetta segir Sævar að hafi uppgötvast með því að skoða skjálftagögn frá Insight-geimfari NASA sem lenti á Mars í nóvember 2018. Geimfarið gerði skjálftamælingar á Mars í fjögur ár.

Gögnin frá Insight benda til þess að innan við 50 km fjarlægð frá lendingarfarinu sé grjótið þess eðlis að það geti borið og geymi grunnvatn á þessu dýpi.

Til þess að komast að þessari niðurstöðu voru notuð eðlisfræðileg líkön af því hvernig berg er á jörðinni og notaðar svipaðar aðferðir og til að finna og kortleggja grunnvatn og olíu hjá okkur hér.

„Þegar gögnin eru skoðuð þá passa mælingarnar best við að þarna í skorpunni sé sprungið eldfjall í grjóti eða storkubergi sem er mettað umtalsverðu magni af fljótandi vatni. Og það er stórmerkileg uppgötvun,“ segir Sævar.

Merki um mikið vatn á Mars fyrir 3-3,5 milljörðum ára

Þegar yfirborð Mars sé skoðað þá sjáist að fyrir ca. 3-3,5 milljörðum ára hafi Mars verið á kafi í vatni og það sjáist dæmi um það með uppþornuðum árfarvegi og uppþornuðum stöðuvötnum. Einnig eru merki um vatnaðar steindir í grjóti.

En spurningin sem veldur vísindamönnum heilabrotum: Hvert fór allt þetta vatn?

Sævar segir að hluti vatnsins á Mars sé bundinn í pólunum, þar sem hluti vatnsins er frosinn í jarðskorpunni. Svo hafa fundist jöklar á Mars sem eru þaktir ryki sem eru skriðjöklar eins og finnast á Íslandi.

Síðast en ekki síst hefur fundist fullt af ís grunnt undir þunnu ryklagi á plánetunni. Hins vegar passi magnið þar ekki við öll þau ummerki sem sjáist á Mars um miklu meira vatn.

„Þannig að bæði virðist vatn þá hafa sokkið ofan í skorpuna sem grunnvatn en líka virðist hluti þess hreinlega hafa gufað upp og streymt út í geiminn.“

Erfitt verður að bora niður eftir sýnum

Sævar segir að af því að vatnið sé á svo miklu dýpi væri gríðarlega erfitt að nálgast það og bora eftir því.

„Það er erfitt að bora svo djúpt á jörðinni og hvað þá á annarri plánetu en það yrði ótrúlega spennandi að sækja sýni og sjá hvað leynist þarna í þessu vatni. Ekki síst vegna þess að við þekkjum það á jörðinni að líf þrífst vel við svipaðar aðstæður og eru þarna niðri. Kannski er þetta fyrsti staðurinn á Mars sem við finnum sem ætti að geta viðhaldið lífi í dag. Það eitt og sér er mjög merkilegt,“ segir Sævar.

Spurður hvort hann telji að það verði einhvern tíma hægt að bora þarna niður eftir vatninu segir Sævar að í fjarlægari framtíð muni það vera mögulegt en ekki í nálægari framtíð.

Það verði því væntanlega einhverjar aðrar kynslóðir sem fái að kynnast því hvað leynist þarna undir.

Fyrsta geimfarið sem mælir innviði Mars

Að lokum bendir Sævar á að Insight-geimfarið sé fyrsti „jarðeðlisfræðingurinn“ sem sendur er til Mars til að mæla innviði reikistjörnunnar almennilega. Hann mældi skjálfta allt upp í 5 að stærð og nokkra sem mældust 4 að stærð. Alls mældi hann 1.319 jarðskjálfta á þessum fjórum árum.

Svo hann hjálpaði til með að skilja betur innviði Mars og einnig skjálfta af völdum loftsteinaárekstra og titrings frá eldfjallasvæðum.

„Þannig að þetta er lifandi pláneta eins og Insight komst að. Þegar jarðskjálftarnir fara í gegnum plánetuna afhjúpast hvað leynist inni í henni.“

Sævar segir að þetta séu því ótrúlega mikilvægar og merkilegar rannsóknir og enn eru að koma fram nýjar niðurstöður.

„Þetta er svo mikið af gögnum að það tekur langan tíma að rannsaka og túlka þau þannig að við erum ennþá að læra og afhjúpa leyndardóma Mars mörgum árum eftir geimfarið hætti að vinna.“

Nánar má lesa um niðurstöðurnar hér.

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert