Ný rannsókn: Skjátími barna hefur afleiðingar

Börn sem notuðu spjaldtölvur í meira en 75 mínútur á …
Börn sem notuðu spjaldtölvur í meira en 75 mínútur á dag við 3,5 ára aldurinn voru reiðari ári síðar og skjátími þeirra hafði aukist árið eftir það. Ljósmynd/Colourbox

Foreldrar ungra barna kannast sumir eflaust við það að ota spjaldtölvu að börnum sínum til þess að róa, endurbeina athygli eða einfaldlega til þess að fá smá pásu.

Ný rannsókn sýnir þó fram á að bjargráðið góða sé ekki endilega gott fyrir tilfinningaþroska barnanna. 

Einhverjir hafa án efa einnig lent í því að barnið fái æðiskast er spjaldtölvan er fjarlægð þegar komið er að matmálstíma, háttatíma eða þegar skjátíminn sjálfur er komin í óhóf.

CNN greinir frá nýrri rannsókn sem birtist í ritrýnda barnalæknngaritinu JAMA Pediatrics, en rannsóknin sýnir fram á tengsl spjaldtölvunotkunar ungra barna og erfiðleika við stjórn á tilfinningum.

Um 315 fjölskyldur tóku þátt í rannsókninni sem skoðaði breytingar …
Um 315 fjölskyldur tóku þátt í rannsókninni sem skoðaði breytingar á hegðun barna þeirra á milli ára í tengslum við spjaldtölvunotkun. AFP/PETER PARKS

Eiga erfiðara með tilfinningastjórn síðar meir

Um 315 fjölskyldur svöruðu árlegum spurningalista um hegðun barna sinna yfir þriggja ára tímabil. Voru börnin í kringum 3,5 ára aldurinn við fyrstu athugun, 4,5 ára við þá seinni og 5,5 ára í þeirri síðustu. 

Sýndu svör foreldra að börn sem notuðu spjaldtölvur í meira en 75 mínútur á dag við 3,5 árs aldurinn fundu fyrir meiri gremju og reiði og áttu almennt erfiðara með tilfinningastjórn við seinni athugunina. 

Voru börnin sömuleiðis líklegri til að vera með aukna spjaldtölvunotkun við þriðju athugunina í kringum 5,5 árs aldurinn, sem bendir að sögn rannsakenda til þess að um sé að ræða vítahring þar sem versnandi hegðun leiði til aukins skjátíma. 

Börnin áttu almennt erfiðara með tilfinningastjórnun í kringum 4,5 ára …
Börnin áttu almennt erfiðara með tilfinningastjórnun í kringum 4,5 ára aldurinn en ári áður. Pexels/Keira Burton

Brýnt þykir að biðla til foreldra

Vert er að hafa í huga að rannsóknin tók til áranna 2020-2022 eða á tímum samkomutakmarkana.

Er tekið fram í rannsókninni að það hafi óneitanlega raskað daglegu lífi og valdið aukinni streitu í mörgum fjölskyldum en þó ekki svo að niðurstöðurnar megi alfarið skýra út frá því.

Voru tengsl á milli versnandi tilfinningastjórnunar barna og spjaldtölvunotkunar þeirra metin svo mikil að brýnt þykir að biðla til foreldra að hafa strangara eftirlit með skjátíma barna sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert