Upptaka: Undarleg hljóð frá geimfarinu

Frá blaðamannafundi NASA í ágúst þar sem farið var yfir …
Frá blaðamannafundi NASA í ágúst þar sem farið var yfir stöðu þeirra geimfara sem ílengst hafa í geimnum. AFP

Bandaríski geimfarinn Butch Wilmore, sem er um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni, hafði samband við stjórnstöð í Houston í Bandaríkjunum á laugardag og greindi frá því að hann hefði heyrt undanleg hljóð úr geimfarinu Starliner.

„Ég er með eina spurningu varðandi Starliner,“ segir Wilmore, en fjallað er um málið á vefnum Ars Technica þar sem jafnframt má hlusta á upptöku af samtalinu við Johnson-geimstöðina í Houston í Texas.

„Hátalarinn gefur frá sér undarleg hljóð [...] Ég veit ekki hvað veldur þessu.“

Geimfarinn Chris Hadfield hefur einnig vakið athygli á hljóðinu.

Geimfararnir Suni Williams og Butch Wilmore hafa dvalið í geimstöðinni …
Geimfararnir Suni Williams og Butch Wilmore hafa dvalið í geimstöðinni mun lengur en upphaflega stóð til vegna bil­unar sem kom í ljós í þrýstiafls­hreyfli geimskutl­unn­ar Starliner. AFP

Einhvers konar púls

Wilmore kvaðst ekki vera viss hvort hljóðið tengdist mögulega því að eitthvað væri í ólagi í tengingum á milli geimstöðvarinnar og geimfarsins. Hann bað stjórnendur í Houston því um að athuga hvort þeir gætu hlustað á hljóðið til greiningar. 

Wilmore bar hljóðnemann sinn að hátalara sem er um borð í Starliner, en geimfarið hefur verið tengt Alþjóðlegu geimstöðinni undanfarna þrjá mánuði. 

„Allt í góðu Butch, þetta skilaði sér,“ sagði stjórnandinn á jörðu niðri. „Þetta hljómaði eins og einhvers konar púls, næstum því eins og sónarhljóð.“

„Ég ætla að gera þetta einu sinni enn og leyfa ykkur að leggja höfuðið í bleyti og sjá hvort þið getið áttað ykkur á því sem er í gangi,“ sagði Wilmore, sem var þó alveg rólegur. Og það var eins og í fyrra skiptið, sónarhljóðið heyrðist aftur.

Það var bandaríski veðurfræðingurinn Rob Dale, sem er búsettur í Michigan, sem tók upp samtalið og deildi því á vefnum, að því er segir í umfjöllun Ars Technica. 

Þar segir jafnframt, að það liggi ekki fyrir hvað valdi þessu hljóði. Þegar Starliner flýgur að geimstöðinni þá fara samskipti á milli með útvarpsbylgjum. Þegar skipið er tengt stöðinni þá fara samskiptin í gegnum strengi.

Ýmislegt getur gerst úti í geimi

Þá er tekið fram að það gerist af og til að geimfarar verði varir við svona undarlegheit. Árið 2003, þegar Kínverjar sendu mann út í geim í fyrsta sinn, kvaðst geimfarinn Yang Liwei hafa heyrt hljóð sem hljómaði eins og einhver væri að slá í járnfötu með tréhamri, þegar hann var á sporbraut um jörðu.

Vísindamenn komust að því að þetta ætti sér eðlilegar skýringar og tengdist minniháttar afmyndunum í geimfarinu sem mátti rekja til mismunar á þrýstingi á innri og ytri veggjum geimfarsins. 

Starliner á að fljúga á sjálfstjórn til jarðar á föstudag. Þá stendur til að Wilmore, og félagi hans Suni Williams, snúi til baka í febrúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert