„Risavaxið skref fram á við“

Sarah Gillis kíkir út í geiminn.
Sarah Gillis kíkir út í geiminn. AFP/Polaris

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, segir fyrstu geimgöngu almenns borgara í morgun vera „risavaxið skref fram á við“ fyrir geimiðnaðinn.

Auðjöfurinn Jared Isaacman leiddi Polaris Dawn-leiðangur fyrirtækisins SpaceX og skráði sig á spjöld sögunnar í morgun með geimgöngunni. Í kjölfar hans fylgdi Sarah Gillis, starfsmaður SpaceX, sem var með honum í geimfarinu. 

„Árangurinn í dag er risavaxið skref fram á við fyrir geimiðaðinn þegar kemur að almennum borgurum og fyrir langtímamarkmið NASA um að byggja upp fjörugan bandarískan geimefnahag,“ skrifaði Bill Nelson, yfirmaður NASA, á X.

Eftir að Isaacman opnaði lúguna á geimfarinu og klifraði í gegn lýsti hann stórkostlegu útsýninu. „SpaceX, heima fyrir hafa allir í nógu að snúast í vinnunni en séð héðan frá lítur jörðin út fyrir að vera fullkomin veröld,“ sagði hann við stjórnstöðina í Hawthorne í bandaríska ríkinu Kaliforníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert