Jared Isaacman varð í morgun fyrstur almennra borgara til að ganga í geimnum eftir að hann opnaði lúguna á geimfari SpaceX.
Viðburðurinn sást í beinni útsendingu á netinu og brutust út mikil fagnaðarlæti í stjórnstöð leiðangursins í Hawthorne í bandaríska ríkinu Kaliforníu þegar áfanganum var náð.
Hingað til hafa þrautþjálfaðir geimfarar frá ríkisstofnunum stundað áhættusama geimgöngu sem þessa, en ekki í þetta sinn.
Í fyrradag náði leiðangurinn Polaris Dawn 1.400 km fjarlægð frá jörðu, sem er um þrisvar sinnum lengra en þar sem Alþjóðlega geimstöðin er stödd. Þetta er lengri vegalengd en nokkurt mannað geimfar hefur náð í yfir hálfa öld.
Um borð í geimfari SpaceX eru fjórir Bandaríkjamenn. Leiðtogi hópsins er auðjöfurinn Jared Isaacman, 41 árs forstjóri fjármálafyrirtækisins Shift4 Payments, sem hann stofnaði í kjallaranum heima hjá sér þegar hann var 16 ára.
Einnig eru með í för tveir starfsmenn SpaceX, þær Sarah Gillis (30 ára) og Anna Menon (38 ára). Sú síðarnefnda skrifaði barnabókina Kossar úr geimnum sem hún ætlar að lesa úr á meðan á leiðangrinum stendur. Ágóðinn af sölu hennar rennur til barnaspítala.
Í geimfarinu er einnig flugmaðurinn Scott Poteet. Hann er fyrrverandi liðsmaður í bandaríska flughernum og náinn vinur Isaacman.