Eitt risastökk fyrir geimtúrisma?

Jard Isaacman sést hér stíga út úr geimfarinu á „Geimgengilinn“, …
Jard Isaacman sést hér stíga út úr geimfarinu á „Geimgengilinn“, pall sem var sérstaklega hannaður fyrir geimgönguna í gær. Er Isaacman sá fyrsti, sem ekki telst vera opinber geimfari, til þess að fara í slíka göngu. AFP/Polaris Program

SpaceX-geimferðafyrirtækið náði merkum áfanga í gær, en þá fór áhöfn á vegum fyrirtækisins í fyrstu geimgönguna sem „einkaaðilar“ hafa farið í, þ.e.a.s. fólk sem ekki var sérþjálfað sem geimfarar á vegum geimferðaþjóðar.

Geimferðin fékk að þessu sinni heitið Polaris Dawn, en auðkýfingurinn Jared Isaacman fékk þann heiður að stjórna henni. Geimfarinu var skotið á loft á þriðjudaginn, og náði það tilskilinni hæð á sporbaug í um 700 kílómetra fjarlægð frá jörðu í gær.

Jörðin eins og fullkominn heimur

Geimgangan hófst klukkan 10.12 að íslenskum tíma, og fékk Isaacman það hlutverk að vera fyrstur til þess að fara í geimgöngu. Hélt hann sér í „Geimgengilinn“, sérhannaðan pall með handföngum fyrir geimgönguna.

„SpaceX, heima fyrir höfum við öll mikið verk að vinna, en frá þessum sjónarhóli lítur jörðin svo sannarlega út eins og fullkominn heimur,“ sagði Isaacman þegar hann var kominn út. Dvaldi hann utan geimfarsins í 12 mínútur, en þá tók Sarah Gillis, verkfræðingur hjá SpaceX, við keflinu. Var hún einnig utan geimfarsins í 12 mínútur áður en hinni sögulegu geimgöngu lauk. Tók allt ferlið um einn klukkutíma og 46 mínútur að meðtöldum undirbúningi geimgöngunnar.

Afrekinu fagnað

Stjórnendur Polaris Dawn á jörðu niðri fögnuðu mjög árangrinum í stjórnstöð sinni í Hawthorne í Kaliforníuríki og Bill Nelson, yfirmaður bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, var ekki síður kátur, en hann skrifaði á samfélagsmiðla sína að tíðindin í gær væru „risastökk áfram fyrir hinn einkareikna geimiðnað og langtímamarkmið NASA um að reisa öflugt bandarískt geimhagkerfi“.

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert