Plánetan nötraði í níu daga

Hér hrundi heil fjallshlíð niður í Dickson-fjörðinn og olli 200 …
Hér hrundi heil fjallshlíð niður í Dickson-fjörðinn og olli 200 metra hárri flóðbylgju sem orsakaði titring plánetunnar í níu sólarhringa. Skjáskot/Drónamyndskeið Arktisk Kommando

Samstarf tæplega 70 vísindamanna í fimmtán löndum hefur nú varpað ljósi á tildrög þess að jörðin titraði í níu sólarhringa í september í fyrra, en starfsfólk skjálftavaktstöðva rak í rogastans víða um heim þegar lágstemmt eintóna suð barst dögum saman frá búnaðinum og töldu einhverjir um bilun að ræða.

Frá þessu greinir Stephen Hicks, jarðskjálftafræðingur við University College London og einn höfunda greinar í vísindaritinu Science um það sem raunverulega gerðist í fyrrahaust – en það gerðist í Dickson-firði á Austur-Grænlandi.

Bráðnandi jökull þar var að lokum ekki nægilega burðugur til að styðja við fjallshlíð fyrir ofan hann sem leiddi til þess að bjarg, 600 sinnum 200 metrar að stærð, 25 milljónir rúmmetra, sem er á við 10.000 ólympíusundlaugar, hrundi úr 1,2 kílómetra hæð í sjó fram og olli með því 200 metra hárri flóðbylgju.

Tilkomumikil sjón hefði einhver séð

Komst bylgjan hvergi í firðinum og gekk því fram og til baka milli stranda hans dögum saman með slíkum ægiþunga að jörðin öll titraði í rúma viku. Það skýrir eintóna suð jarðskjálftamælitækjanna í stað hinna vanalegu skruðninga með hátíðnihljóðum í bland.

Skrifar danska ríkisútvarpið DR að flóðbylgjan hljóti í upphafi að hafa verið tilkomumikil sjón þar sem hún jafnaði möstur Eyrarsundsbrúarinnar milli Kaupmannahafnar og Malmö í hæð. Þess fékk þó enginn lifandi maður að njóta – enginn sá flóðbylgjuna háu geisa dögum saman í óbyggðum Dickson-firðinum.

Áhrifin voru þau augljós og voru lengi talin ráðgáta, greinilegt var að einhver ógnarkraftur hefði skilið eftir sig augljós ummerki á landi. Frá vinnubúðum, sem ekki voru mannaðar þá daga sem hamfarirnar stóðu, skolaðist gámur með gröfu út í sjó „ok kom hvártki upp síðan“ svo vísað sé til frásagnar Egluhöfundar af ambáttinni Brák og bjarginu sem Skalla-Grímur þeytti á eftir henni á sundinu.

Inn á ókönnuð hafsvæði

Að sögn greinarhöfunda Science er það hins vegar engin ráðgáta hvað olli hruni jökulsins. Þar er hin svokallaða hamfarahlýnun jarðar að verki og skrifa höfundarnir að norðurheimskautið sigli nú inn á ókönnuð hafsvæði (e. uncharted waters) vegna hlýnunar sem mannkynið hafi knúið áfram með iðnaði sínum.

Þetta staðfestir Kristian Svennevig, rannsakandi við Jarðfræðirannsóknastofnun Danmerkur og Grænlands, GEUS. „Þetta getum við tengt við loftslagsbreytingarnar sem gera það að verkum að jöklarnir á norðurheimskautinu hopa,“ segir Svennevig og bætir því við að nú sé svo komið að nýtt svæði norðan heimskautsbaugs sé tekið að verða fyrir áhrifum breytinganna.

DR

DR-II (loftslagsbreytingar orsökin)

DR-III (flóðbylgjan 17. júní 2017)

CNN

Greinin í Science

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert