Yfirvöld á Írlandi hafa sektað Meta, móðurfélag Facebook og Instagram, um 91 milljón evra, eða sem nemur 14,2 milljörðum króna, fyrir brot á lögum Evrópusambandsins um gagnaöryggi, en lykilorð 36 milljón notenda voru geymd ódulkóðuð hjá fyrirtækinu.
Nefnd um gagnaöryggi á Írlandi, þar sem Meta er með höfuðstöðvar fyrir Evrópustarfsemi sína, komst að þeirri niðurstöðu að Meta hefði ekki verið með nægjanlegar öryggisráðstafanir til að verja lykilorð notenda samfélagsmiðilsins. Þá hafi fyrirtækið einnig verið of lengi að láta yfirvöld vita af vandamálinu.
Skoðun yfirvalda hófst í apríl árið 2019. Í ljós hafði komið hjá Meta í janúar það sama ár að lykilorð voru geymd ódulkóðuð á innri kerfum fyrirtækisins. Lét Meta yfirvöld vita í mars, eða um tveimur mánuðum eftir að upp komst um brestinn.
Graham Doyle, samskiptastjóri nefndarinnar, sagði við fjölmiðla að það væri þekkt staðreynd að geyma ætti lykilorð dulkóðuð, en ekki ódulkóðuð. Þessi háttsemi hafi opnað á möguleika á misnotkun ef starfsmenn eða aðrir færu að skoða ódulkóðuðu gögnin.