Sú skærasta síðan 2007 – áhugaljósmyndarar í skýjunum

C/2023 A3 Tsuchinshan-ATLAS svífur yfir óþekktu landsvæði 2. október, ljósmyndari …
C/2023 A3 Tsuchinshan-ATLAS svífur yfir óþekktu landsvæði 2. október, ljósmyndari Wikipedia tiltekur ekki staðsetningu. Ljósmynd/Wikipedia.org/Cafuego

Þessa vikuna verður C/2023 A3 Tsuchinshan-ATLAS vel sýnileg á vesturhimni víða um jarðir enda aðeins í 73,8 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðu. Tækifærið gefst einu sinni, gesturinn svífur þetta eina skipti fram hjá okkur og síðan ekki söguna meir.

Þetta þjála nafn er á halastjörnu, þeirri björtustu sem jarðarbúum hefur gefist að berja augum síðan árið 2007, og hún kemur um langan veg, alla leið frá Oort-skýinu, ysta svæði sólkerfisins, og komu Kínverjar fyrstir auga á hana 9. janúar í fyrra gegnum kíki sinn í Tsuchinshan-stjörnurannsóknarstöðinni í Austur-Nanjing.

Eftirlitskerfi lokaaðvörunarinnar

Það var svo skömmu síðar, 22. febrúar, að sjónaukar ATLAS-árekstraeftirlitskerfisins í Suður-Afríku greindu halastjörnuna og deila þessir tveir staðir því nafngift hennar, en raunar er stjarnan í daglegu tali einfaldlega kölluð A3. ATLAS-stöðinni er ætlað að vara við árekstrum loftsteina og annarra fyrirbæra er sveima um himingeiminn með nokkurra daga – og helst vikna – fyrirvara enda nafnið bak við skammstöfunina kannski ekki huggulegt: Asteroid Terrestrial-impact Last Alert System.

Norðmenn fylgdust í gærkvöldi, mánudagskvöld, með A3 um allt hið tæplega 1.800 kílómetra langa land sitt þótt stjarnan sæist mun betur frá Suður-Noregi en hinum nyrstu byggðum og í spilaborginni Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum mun A3 hafa verið mikið sjónarspil yfir sjóðheitri skraufþurri Mojave-eyðimörkinni.

„Þetta er tiltölulega stór halastjarna. Menn telja hana um tvo kílómetra að þvermáli,“ segir Håkon Dahle, rannsakandi við Stjarneðlisfræðirannsóknarstofu Háskólans í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en sá sem fréttina skrifar lýsir A3 sem „stórum skítugum snjóbolta úr frosnu gasi og ryki“ sem æði gegnum geiminn á rúmlega 100.000 kílómetra hraða miðað við klukkustund.

Upp á fjallið Gråkallen til að mynda

Áhugaljósmyndarar hafa vitanlega flykkst á myrkustu staði sem þeir komast á til að festa A3 á minniskort véla sinna með eins lítilli ljósmengun og býðst enda gefst aðeins eitt tækifæri – halastjarnan kemst aldrei aftur í tæri við jörðina.

„Ég byrjaði að taka myndir undir áhrifum stjörnuljósmyndunar,“ segir Øivind Boge, einn þessara áhugamanna, en játar að þetta brölt um miðja nótt sé ekki það eftirsóknarverðasta svo fyrst og fremst séu það náttúrulífsmyndir sem hann fæst við og hefur gert í áratug. Í gærkvöldi lét hann sig þó hafa það að koma sér upp á fjallið Gråkallen í Þrándheimi til að mynda A3 og hafði erindi sem erfiði. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé halastjörnu og í fyrsta sinn sem ég næ mynd af slíkri. Ég er í skýjunum,“ segir Boge.

Síðasta halastjarna sem blasti eins skært við jarðarbúum bar þjálla nafn, einfaldlega McNaught, og var sú sem fór með himinskautum árið 2007. A3 verður sýnileg um það bil viku í viðbót en dofnar hægt og bítandi þar sem hún er nú á leið frá jörðu. „Birtustigið er þó ekki mjög breytilegt frá degi til dags,“ segir rannsakandinn Dahle.

NRK

VG

Teknisk ukeblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert