Ísland verði móttökustaður fyrir sólarorkuver í geimnum

Áætlað er að fyrsta tilraunaorkuverið á sporbaug um jörðu skili …
Áætlað er að fyrsta tilraunaorkuverið á sporbaug um jörðu skili 30 MW til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Orkuveitan, íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs og breska hátæknifyrirtækið Space Solar hafa skrifað undir þríhliða viljayfirlýsingu um samstarf í tengslum við virkjun sólarorku í geimnum og áframsölu mögulegrar roku sem verður til á rannsóknarstigi.

Gæti Ísland orðið móttökustaður fyrir fyrsta sólarorkuver sem skotið verður út í geim.

Í tilkynningu segir að óháðar rannsóknir fagaðila bendi til þess að hægt verði að framleiða græna orku með sólarorkuverum á sporbautum um jörðu á hagkvæman hátt. 

„Space Solar hefur þróað sólarorkuver sem áætlað er að verði á sporbaug um jörðu. Tæknin gengur út á það að orkuverin muni virkja geisla sólarinnar og miðla orkunni til jarðar með stuttum útvarpsbylgjum. Fyrirhugað er að svokallaðar jarðstöðvar taki síðan við bylgjunum, umbreyti þeim í rafmagn og skili grænni endurnýjanlegri orku inn í orkukerfi heimsins,“ segir í tilkynningunni.

Kynnt á ársfundi Orkuveitunnar

Í viljayfirlýsingunni kveður á um að aðilar vinni saman að ýmsum þáttum fyrsta fasa uppbyggingar Space Solar. Áætlað er að fyrsta tilraunaorkuverið á sporbaug um jörðu skili 30 MW til jarðar.

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs hefur átt í samstarfi við Space Solar um nokkurt skeið, eins og skýrt var frá í fjölmiðlum síðastliðið vor. Verkefnið var einnig kynnt á ársfundi Orkuveitunnar í apríl síðastliðnum,“ segir í tilkynningunni.

„Transition Labs vinnur að undirbúningi þróunarstarfsins auk þess að styðja Space Solar í viðskiptaþróun, stefnumótun og fjármögnun. Tæknin og vísindin að baki starfsemi Space Solar eru vel þekkt en enn á eftir að leysa ýmsar verkfræðilegar áskoranir varðandi virkjun sólarorku úr geimnum.“

Í tilkynningunni segir að áskorun sé að velja staðsetningar fyrir fyrstu móttökustöðvar orkunnar á jörðu niðri.

Móttökustöðvar á norðurhveli

„Við horfum til þess að staðsetja móttökustöðvar á norðurhveli jarðar og er í því sambandi meðal annars litið til Íslands, Kanada og norðurhluta Japan. Komi til uppbyggingar á Íslandi er okkur mikilvægt að eiga í samstarfi við leiðandi íslenskt orkufyrirtæki um áframsölu orkunnar, auk annarra úrlausnarefna sem tengjast uppbyggingunni,” er haft eftir Kjartani Erni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Transition Labs, í tilkynningunni.

„Orkuveitan er draumasamstarfsaðili fyrir verkefni af þessu tagi enda hefur fyrirtækið sýnt að það er framsýnt og skorast ekki undan leiðandi hlutverki þegar kemur að loftslagsaðgerðum.“

Spennandi verkefni

„Við í Orkuveitunni erum stolt af því að aðilar eins og Space Solar skuli leita til okkar. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni þar sem enn á eftir að leysa ýmsar flóknar verkfræðilegar áskoranir. Það er mikilvægt að hugsa stórt og styðja við framsækin verkefni,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Orkuveitunnar.

„Viljayfirlýsingin felur m.a. í sér kaup á mögulegri orku sem verður til á rannsóknarstigi. Við höfum einnig rætt það að aðstoða fyrirtækið við að tengjast neti Landsnets. Takist þessum aðilum að leysa áskoranirnar gæti það skipt sköpum í orkuöflun framtíðar.“

Frumgerð að sólarorkuveri Space Solar hefur verið í prófunum hjá …
Frumgerð að sólarorkuveri Space Solar hefur verið í prófunum hjá Queen’s University Belfast á Írlandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert