Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur gefið út nýjan farsímaleik á alþjóðavísu, EVE Galaxy Conquest, sem bætist við vaxandi EVE-leikjaheim fyrirtækisins. Kemur þetta fram í tilkynningu frá CCP.
Var leikurinn nýi fyrst kynntur til sögunnar á EVE Fanfest-hátíðinni í fyrra en hátíðin er árlegur viðburður í Reykjavík. Í kjölfar vöruþróunar og prófana hefur framleiðandinn nú gefið leikinn út fyrir hvort tveggja Apple- og Android-síma og spjaldtölvur.
EVE Galaxy Conquest var þróaður á starfsstöð CCP í Shanghai og gerist í sama söguheimi EVE Online, fyrsti tölvuleikur CCP, sem leit dagsins ljós árið 2003. Eftir því sem greinir frá í tilkynningu CCP er þó engin bein tenging milli leikjanna tveggja og býður sjálfstæð leikjaupplifun Galaxy Conquest upp á nýja tengingu við EVE-leikjaheiminn í gegnum farsíma.
„Leikurinn gengur út á hraðvirka atburðarás þar sem þátttakendur geta náð völdum og árangri með stjórnun auðlinda, diplómatíu og stríðsátökum,“ segir enn fremur.
CCP hefur í rúmlega aldarfjórðung verið í fararbroddi stafrænna sýndarheima. Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík árið 1997 og starfrækir einnig starfsstöðvar í London og Shanghai. Hjá CCP starfa 432 starfsmenn af 29 þjóðernum. Þar af eru starfsmenn CCP á Íslandi um þrjú hundruð talsins. Rúmlega 60 milljónir hafa spilað leiki CCP frá útgáfu fyrsta leikjar fyrirtækisins árið 2003.