Nokkuð víðtæk bilun átti sér stað í nokkrum kerfum hugbúnaðarrisans Microsoft í morgun. Hefur bilunin haft áhrif á póstþjónustuna Outlook og Teams hópakerfið. Bæði kerfin eru hluti af Office 365 hugbúnaðarpakka fyrirtækisins.
Bilunarinnar hefur orðið vart hér á Íslandi og víðar í Evrópu, en ekki er enn ljóst hversu víðtæk hún er.
Í almennri þjónustugátt Microsoft kemur fram að öll þjónusta fyrirtækisins sé í lagi og að ekkert bjáti á. Hins vegar hefur Microsoft upplýst á aðgangi sínum á Twitter að vandamál séu með einhvern hluta þjónustu fyrirtækisins og að verið sé að skoða vandamálið.