Fyrirtækið Google hefur svipt hulunni af skammtaflögu sem er nýjasta tólið í þróun skammtatölvunarfræði. Heldur fyrirtækið því fram að flagan leysi vandamál á fimm mínútum sem hröðustu ofurtölvur heimsins myndu leysa á tíu kvaðrilljónum, eða 10.000.000.000.000.000.000.000.000 árum.
Rétt er að taka fram að alheimurinn er „aðeins“ 13,7 milljarða ára gamall, eða 13.700.000.000 ára.
Google segir að markmiðið sé að leysa vandamál framtíðinnar sem hingað til hafa verið óleysanleg.
Í frétt breska ríkisútvarpsins (BBC) segir að flagan sé hluti af þróun skammtatölvunarfræði sem snýr nú að því að nota öreindafræði til að skapa nýja týpu af ótrúlega öflugri tölvu.
Hefur Google nefnt skammtaflöguna Willow og segir hana vera lykilinn að stórum byltingum í skammtatölvunarfræði framtíðar þar sem hún muni ryðja leiðina að skammtatölvu á stórum skala.
Þó segja sérfræðingar að Willow sé, eins og er, að mestu leyti tilraunatæki, sem þýðir að skammtatölva sem væri nógu öflug til að leysa raunveruleg fjölþætt vandamál er enn þá einhverjum árum, og milljörðum bandaríkjadala, frá því að vera byggð.
Greinir BBC frá því að skammtatölvur virki með allt öðrum hætti en sú tækni sem fólk þekkir í gegnum síma sína eða tölvur.
Þeir notist við skammtafræði, sem er hin „undarlega hegðun“ örlítilla agna, til að leysa vandamál með miklu sneggri hætti en hefðbundnar tölvur gera.
Þá er vonast eftir því að skammtatölvur gætu á endanum náð að flýta töluvert fyrir flóknum verkefnum eins og að skapa ný lyf.
Þó ríkja einnig efasemdir gagnvart skammtatölvum og eru sumir sem óttast að þær gætu verið notaðar til ills eins og t.d. að brjótast í gegnum tegundir dulkóða sem notaðir eru til að vernda viðkvæmar upplýsingar.
Þá ber þess t.d. að geta að fyrirtækið Apple tilkynnti í febrúar að dulkóðun sem verndar IMessage-skilaboð væri í því ferli að vera gerð meira varið svo að skammtatölvur gætu ekki brotist í gegnum dulkóðann í framtíðinni og lesið skilaboðin.
Hartmut Neven, sem leiðir rannsóknarstofu Google er snýr að skammtagervigreind og lýsir sjálfum sér sem æðsta bjartsýnismanni Willow-verkefnisins, segir að skammtaflagan yrði notuð í sumum hagnýtum verkefnum en neitaði að gefa upp frekari upplýsingar.
Þó tók hann fram að flaga á borð við Willow sem hægt væri að nota á sviðum þar sem skammtaáhrif eru mikilvæg, eins og við hönnun á kjarnasamrunaofnum eða til að skilja betur virkni lyfja og lyfjaþróunar, myndi ekki sjást fyrir lok áratugarins.
Þó að Willow hafi hlotið mikið lof bendir prófessorinn Alan Woodward, tölvunarfræðingur við Surrey-háskólann í Bretlandi, á að skammtatölvur muni vissulega verða betri í ýmsum verkefnum en hinar hefðbundnu tölvur en að þær muni þó ekki koma í stað þeirra.
Segir hann að ekki eigi að ofmeta árangur Willow út frá einu prófi og nefnir að ekki ætti að bera saman epli og appelsínur. Google hafi valið vandamál og notað sem viðmið fyrir frammistöðu, sem hafi verið sérsniðið fyrir skammtatölvu.
Hann tók engu að síður fram að Willow marki tímamót, þá sérstaklega þegar kæmi að því sem kallað er villuleiðrétting, en villur eru stór hindrun þegar kemur að sköpun öflugra skammtatölva og því hafi þróunin á bak við Willow verið hvetjandi fyrir alla sem leitast við að smíða hagnýta skammtatölvu.
Þó tekur Google fram að til að þróa hagnýtar skammtatölvur þurfi villuleiðrétting að vera mun meiri en það sem kom fram þegar Willow var prófað.