Carbfix og CarbonQuest undirrituðu á dögunum viljayfirlýsingu um samstarf í Norður-Ameríku.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.
Með samstarfinu munu fyrirtækin tvö nýta sérþekkingu sína á staðbundinni kolefnisföngun og steinrenningu til að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Bandaríkjum og Kanada að draga verulega úr losun tengdri starfsemi þeirra.
Samstarfið miðar að þeim fyrirtækjum sem eru staðsett nálægt hentugum landsvæðum til steinrenningar sem gerir kolefnisföngun hagkvæmari.
Markmiðið er að draga úr kostnaði og bæta skilvirkni slíkra verkefna en nýstárleg tækni CarbonQuest, sem verður notuð í samstarfinu, er hægt að aðlaga að núverandi orkukerfum margra fyrirtækja í löndunum.
DCCS (e. distributed carbon capture and storage) tækni CarbonQuest er byggð í einingum, tekur lítið pláss og nýtir nýjustu tækni föngunar sem gerir kleift að fanga CO2 í aðstæðum með takmarkað aðgengi.
Tæknin nýtist í meirihluta iðnaðar ásamt því að geta fangað CO2 frá stórum byggingum þar sem nýtt er jarðefnaeldsneyti eða efnarafalar (e. fuel cell) til orkuframleiðslu.
Carbfix-tæknin leysir upp CO2 í vatni og dælir því niður í hentug berglög þar sem náttúrulegir ferlar breyta CO2 í stöðugar karbónatsteindir, sem breytast í berg, innan tveggja ára.
„Carbfix er spennt að vinna með CarbonQuest til að efla starf okkar í Norður-Ameríku. Viljayfirlýsing mun tryggja að saman getum við raungert þýðingarmikil verkefni í Bandaríkjunum og Kanada,“ er haft eftir Eddu Aradóttur, forstjóra Carbfix.
„Samstarf okkar við Carbfix mun flýta fyrir upptöku kolefnisföngunar um alla Norður-Ameríku,“ er haft eftir Shane Johnson, forstjóra CarbonQuest. „Saman sjáum við fjölmörg tækifæri í bæði nýjum og núverandi verkefnum. Lausn Carbfix er hagkvæm og varanleg leið til að steinrenna fangað CO2 jafnvel þar sem losun er staðsett langt frá móttökustöð fyrir CO2.“