Maurar hafa betri hópvitund en mannfólk

Maurar að störfum.
Maurar að störfum. Ljósmynd/Wikipedia

Teymi á vegum Weizmann-vísindastofnunarinnar í Ísrael hefur komist að því að maurar hafa betri hópvitund en mannfólk.

The Times of Israel greinir frá. Prófessor Ofer Feinerman, sem stýrði rannsókninni, segir að hún sýni að vitrænir hæfileikar manna veittu þeim forskot á maura þegar þeir unnu hver fyrir sig. Hins vegar, þegar maurar sameinuðu krafta sína og mynduðu hópa, höfðu þeir betur gegn hópi fólks sem vann saman.

Rannsóknin birtist nýlega í tímaritinu tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences.

Tabea Dreye, einn rannsakendanna, bjó til raunveruleikaútgáfu af því sem er þekkt sem „píanóhreyfingaþraut“ sem skoðar mögulegar leiðir til að færa óvenjulega lagaðan hlut, til dæmis píanó, frá punkti A til B í flóknu umhverfi.

Í stað píanós fengu maurarnir og fólkið stóran T-laga hlut sem þeir þurftu að færa yfir rétthyrnt rými sem var skipt í þrjú hólf og tengd með tveimur mjóum rifum.

Rannsakendur bjuggu til tvö sett af völundarhúsum, eitt sem var á stærð við maura og annað sem var á stærð við mann.

Vísindamennirnir sögðu að auðvelt hafi verið að fá fólk til að taka þátt í rannsókninni en fólk hafi boðið sig fram vegna þess að því líkaði líklega hugmyndin um keppni. Maurarnir voru hins vegar leiddir áfram með að halda að farmurinn sem þeir fluttu inn í hreiður sitt væri safaríkur ætur biti.

Maurarnir tókust á við völundarhúsáskorunina í þremur samsetningum, sjálfstætt, í litlum hópi sem samanstóð af um það bil sjö maurum og síðan í stórum hópi sem í voru um 80 maurar. Fólk sinnti verkefninu í þremur samhliða samsetningum, sem einstaklingar, í litlum hópi 6-9 manns og í stórum hópi með 26 manns.

Fólk vann betur eitt en í hópum

Rannsakendur komust að því að fólk vann betur eitt en í hópum. Hjá maurunum var þessu öfugt farið. Hópar maura störfuðu saman á stefnumótandi hátt og sýndu sameiginlegt minni sem hjálpaði þeim að halda áfram í ákveðna hreyfistefnu til að forðast endurtekin mistök.

Mönnum tókst ekki að bæta verulega frammistöðu sína þegar þeir unnu saman í hópum. Þar að auki, þegar samskipti milli meðlima hópsins voru takmörkuð til að líkjast maurum, dró úr frammistöðu þeirra enn frekar. Þeir höfðu tilhneigingu til að velja skammtímalausnir sem voru ekki gagnlegar fyrir verkefnið til lengri tíma litið.

„Maurar eru í raun fjölskylda. Þeir hafa sameiginlega hagsmuni. Þeir mynda þétt samfélag þar sem samvinna vegur miklu þyngra en samkeppni,“ segir Feinerman. Aftur á móti, þegar fólk vann í hópum, gat það ekki bætt hæfni sína til að skipuleggja á stefnumótandi hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert