Árið 2024 var hlýjasta ár sögunnar síðan mælingar hófust og fyrsta árið þar sem meðalhiti er 1,5 gráðu hærri en hann var fyrir iðnbyltingu. Þá er losun gróðurhúsalofttegunda meginorsök mikils loft- og sjávarhita, en aðrir þættir eins og El Nino-veðurfarssveiflan lagði einnig til óvenjumikils hita á síðasta ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu veðurfarsþjónustu Kópernikus (C3S), sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins en er rekin af Reiknisetri evrópskra veðurstofa (ECMWF). Greint er frá málinu á vef Veðurstofu Íslands.
Árið 2023 var einnig metár frá upphafi mælinga, sem ná aftur til 1850. Á síðasta ári mældist hnatrænn meðalhiti þó 0,12 gráðum hærri og var metið því slegið að nýju.
Heitasti dagur sögunnar var þann 22. júlí 2024 þegar hnattrænn meðalhiti mældist 17,16 gráður.
Einnig er greint frá því að yfirborðshiti sjávar hafi nú aldrei verið hærri og var, utan heimskautasvæða, að meðaltali 20,87 sem er 0,51 °C yfir meðaltali áranna 1991 – 2020.
Á meðal annarra markverðra atriða má nefna að í Evrópu hafi meðalhitinn árið 2024 verið 10,69 gráður sem er 1,47° yfir meðaltali áranna 1991 – 2020 og 0,28°C heitara en 2020 sem var síðasta metár í Evrópu.