„Við erum fjögur sem erum að vinna við þetta hér á Ísafirði núna. Ég á von á því að vöxturinn í fyrirtækinu verði í sölu- og markaðsmálum frekar en framleiðslunni sem við erum frekar að útvista til fagmanna.“
Þetta segir Steingrímur Einarsson framkvæmdastjóri Fossadals á Ísafirði sem framleiðir nýja gerð af fluguveiðihjólum sem njóta vaxandi vinsælda innanlands og utan. Eru hjólin seld undir vörumerkinu Einarsson Fly Fishing. Fossadalur er eina fyrirtækið hér á landi sem framleiðir veiðihjól.
Hugmyndin að hjólunum og hönnunin er frá Steingrími komin. Hann smíðaði fyrstu hjólin árið 2004 sjálfum sér og vinum sínum til gagns og gamans. Fyrirtækið Fossadalur ehf. var stofnað þremur árum seinna og var þá hafist handa um markvissa þróun og endurbætur hugmyndarinnar. Nú eru framleiddar tvær tegundir af veiðihjólunum og hvor þeirra í nokkrum stærðum og mismunandi litum. Eldri útgáfan er nefnd Plus en sú nýrri Invictus. Hún er með nýstárlegri bremsu sem er mýkri en áður hefur þekkst og þykir minnka líkurnar á því að menn missi fiskinn. Hefur Fossadalur fengið einkaleyfi á bremsunni.
Veiðihjólin eru rennd í tölvustýrðum bekk úr álkubbum sem framleiddir eru hjá Alcoa í Bandaríkjunum. Málmblandan hefur mikið tæringarþol og inniheldur meðal annars magnesíum, kísil, kopar og króm.
Steingrímur segir að meginþunginn í starfsemi Fossadals felist nú í þjónustu við viðskiptavini og markaðs- og sölustarf erlendis Var Magnús Hávarðarson ráðinn markaðsstjóri fyrirtækisins fyrr á árinu og mun hann halda utan um kynningarstarfsemina.
Í ársbyrjun voru gerðir sölusamningar í Japan og vinna við samninga í Bandaríkjunum og Kanada er komin áleiðis. Þá hafa hjólin um nokkurt skeið verið til sölu annars staðar á Norðurlöndum og í Norður-Evrópu. Þau hafa selst vel í Þýskalandi. Þau eru einnig til sölu hér innanlands. Kostar eldri gerðin frá 60 til 100 þúsund krónur og nýrri gerðin frá 100 til 140 þúsund. Samtals hafa um eitt þúsund hjól verið seld á þessu ári.
Steingrímur kveðst bjartsýnn á framtíð fyrirtækisins en segir að enn sé langt í land. Fjárfestar hafi lagt mikið fé í þróun hjólsins og markaðssetningu og taki tíma að það skili sér, enda sé um að ræða markaði þar sem mikil samkeppni sé og ekki einfalt að byggja upp nýtt vörumerki. Mikilvægt sé að leggja alúð í þjónustu við viðskiptavini enda sé orðsporið það sem öllu ráði.
Fjárfestarnir á bak við Fossadal eru allir íslenskir nema einn. Flestir eru frá Ísafirði. Verkefnið hefur einnig fengið ýmsa nýsköpunarstyrki.
Steingrímur Einarsson er Reykvíkingur að uppruna og fiskeldisfræðingur að mennt. Hann fluttist til Ísafjarðar árið 1998, en þar er kona hans fædd og uppalin. Á Ísafirði tók hann þátt í stofnun fyrirtækis sem framleiddi vélbúnað fyrir matvælavinnslu. Þar kviknaði hugmyndin um smíði fluguhjóls og gerði hann nokkrar tilraunar í þá veru. Prufuhjólin vöktu athygli veiðimanna og þetta vatt upp á sig. Vorið 2007 var ákveðið að stofna félagið Fossadal um hugmyndina og síðan hefur boltinn rúllað.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |