Fín veiði við Langholt í Hvítá

Fossasvæðið við Langholt í Hvítá.
Fossasvæðið við Langholt í Hvítá. krafla.is

Veiðst hefur vel á stöng og net í Ölfusá í sumar og hefur stangveiðisvæðið við Selfoss gefið tæplega 450 laxa og stefnir þar í að verða besta veiðisumar síðan 1978. Einnig hefur frést af góðri veiði ofar á vatnasvæðinu í Hvítá.

Að sögn Hreggviðs Hermannssonar á Langholti við Hvítá var jöfn og þétt laxveiði á hans svæði í sumar þótt hún hafi byrjað fremur seint, en alls veiddust rúmlega 200 laxar. Er þetta fornfrægt svæði þar sem má veiða á þrjár stangir en á bestu árunum fyrir jökulhlaupin úr Hagavatni árin 1980 og 1999 komst veiðin í 600 laxa á sumri. Hreggviður kvaðst nú orðið himinlifandi þegar svæðið næði 300 löxum.

Hreggviður sagði að laxveiðinni hefði lokið hinn 20. ágúst, en núna væri veiddur sjóbirtingur um helgar eitthvað fram í september. Enginn sérstaklega stór lax hefði komið á land hjá honum í sumar en hann vissi þó af einum 19 punda, en Langholtssvæðið var áður fyrr þekkt fyrir marga stóra laxa sem þar veiddust á hverju sumri. Sagði Hreggviður að dregið hefði úr því og skýringin væri að bæði hefði stórlaxinum hafi fækkað, auk þess sem menn veiddu mun meira á flugu nú á dögum og misstu því mjög oft þessa stóru.

Sagði hann að nokkrir veiðimenn hefðu verið hjá sér í sumar sem hefðu sett í stórfiska á flugu sem hefðu rétt upp krókana enda ættu þeir tiltölulega auðvelt með að fá aðstoð frá öllu vatnsmagninu sem þarna er.

Fram kom hjá Hreggviði að upp úr miðjum ágúst hefðu samkvæmt venju farið að veiðast stórir sjóbirtingar og kom meðal annars einn ellefu punda á land og margir níu punda. Á tímabili eftir miðjan ágúst hefði meðalþyngdin verið í kringum sex pund á veiddum sjóbirtingi. Hreggviður sagði að þetta væri yfirleitt með þessum hætti varðandi sjóbirtingana; þessir stóru kæmu fyrst og færu svo ofar í ána á svokallaða Sanda fyrir ofan Langholt þar sem ógjörningur væri að veiða þá. Minni sjóbirtingurinn væri hins vegar að ganga núna og væri hann vanalega eitt til þrjú pund.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert