„Stórlaxinn mættur aftur á Vesturland“

Stórlaxinn er að ná sér á strik á Vesturlandi eftir …
Stórlaxinn er að ná sér á strik á Vesturlandi eftir að hafa átt undir högg að sækja. Hér er augnablikið þegar einn slíkur tekur flugu veiðimanns í Þverá. Óttar Finnsson

Veiðin í júní í Þverá og Kjarrá er um tuttugu prósent meiri en hún var á sama tíma í fyrra, segir Ingólfur Ásgeirsson einn leigutaka veiðisvæðisins. Hann segir helstu ástæðuna vera stóraukið hlutfall stórlaxa sem ganga í Þverá og áfram upp í Kjarrá. „Stórlaxinn er bara kominn aftur. Það hefur verið sannað að með því að sleppa stórlaxi þá eykst hlutfall hans. Stórlax elur af sér stórlax.“

Ingólfur nefnir sem dæmi að hér á árum áður hafi oft verið ágæt opnun en svo hafi komið nokkur holl þar sem veiðin hafi verið mjög lítil því að stórlaxinn hafi ekki skilað sér sem skyldi. „Hlutfall af stórlaxi var komið niður í fimm til tíu prósent. Nú er hlutfallið nær þrjátíu prósentum. Þetta er bara nýr leikur,“ segir Ingólfur Ásgeirsson í samtali við Sporðaköst.

Til að útskýra hvað þetta skiptir miklu máli er rétt að horfa til þess að 2ja ára lax eða stórlax gengur fyrstur í árnar. Þeir byrja að koma um mánaðamóti maí - júní og eru uppistaða í veiði fram til 20. júní að smálaxinn fer að ganga.

Smálaxinn er víða farinn að láta sjá sig og hann …
Smálaxinn er víða farinn að láta sjá sig og hann er vel á sig kominn. Óttar Finnsson

Síðustu holl sem luku veiðum í Þverá og Kjarrá bókuðu samtals 164 laxa. 63 veiddust í Kjarrá og 101 í Þverá. Þessi holl luku veiðum á hádegi í gær. Morgunvaktin í Þverá skilaði svo 30 löxum þannig að samtals eru þessi tvö veiðisvæði að nálgast 700 fiska. Þverá komin með 406 fiska og Kjarrá vel á þriðja hundraðið.

Beckham og Björgólfur voru bestir

Einar Sigfússon sem rekur Norðurá tekur í sama streng hvað varðar stórlaxinn. Hann segir hlutfallið hafa aukist í Norðurá og nefnir sem dæmi að nú í sumar hafi veiðist þó nokkrir fiskar yfir 90 sentímetra. „Ég fékk nú sjálfur einn sem 94 sentímetrar þegar ég var að veiða 21. til 24. júní.“ Stærsti laxinn úr Norðurá þetta sumarið er 97 sentímetrar.

Um aðstæður í Norðurá segir Einar að áin sé svo vatnsmikil að hún sé í raun einn samfelldur veiðistaður frá Laxfossi og niður úr. Hún var 36 rúmmetrar í gær en kjörvatn er um 12 rúmmetrar.

Þegar Einar var spurður út í hvernig hefði gengið hjá David Beckham og Björgólfi Thor sagði hann að í hollinu hefðu verið misvanir veiðimenn en Björgólfur og Beckham hefur verið áberandi bestir. „Beckham veiddi vel og er greinilega vanur. Mér þótti vænt um að það var enginn ágangur frá fjölmiðlum eða forvitnu fólki og þeir nutu sín eins og hverjir aðrir veiðimenn,“ sagði Einar Sigfússon í samtali við Sporðaköst.

Veitt í Kirkjustreng í Þverá. Hún er komin yfir 400 …
Veitt í Kirkjustreng í Þverá. Hún er komin yfir 400 laxa og morgunvaktin í dag skilaði 30 fiskum. Óttar Finnsson

Hann segir að endurkoma stórlaxins sjáist enn betur í Haffjarðará sem hann hefur verið viðloðandi áratugum saman. „Þar höfum við fengið tvo fiska í vor sem mældust 100 sentímetrar og mikið af fiski sem er yfir 90 sentímetrar. „Í Haffjarðará byrjuðum við að sleppa stórlaxi 1996 og sáum fljótlega breytingu til batnaðar.“

Enn ein staðfesting á endurkomu stórlaxins kemur frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur sem er með Langá á leigu. Ari Jafetsson framkvæmdastjóri SVFR segir ljóst að í Langá hafi aukist hlutfall stórlaxins. Að sama skapi eins og aðrir sem teknir voru tali í dag, taldi Ari að sleppingar á stórum fiski væri lykillinn að þessum viðsnúningi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert