Allt eldi fari í lokuð kerfi

Fiskeldi Austfjarða í Berufirði. Mynd úr safni.
Fiskeldi Austfjarða í Berufirði. Mynd úr safni. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Fiskeldi í opnum sjókvíum við strendur landsins með frjóum fiski af norskum uppruna eru hamfarir gegn náttúrunni og íslenskum hagsmunum.“ Þetta eru lokaorð harðorðrar yfirlýsingar sem Veiðifélag Breiðdæla samþykkti á aðalfundi sínum fyrir nokkrum dögum.

Aðalfundurinn var haldinn í Eyjum, veiðihúsinu við Breiðdalsá. Mótmælir aðalfundurinn harðlega laxeldi í opnum sjókvíum við strendur landsins og skorar á stjórnvöld að grípa nú þegar til viðeigandi aðgerða til heilla fyrir framtíð þjóðar, eins og það er orðað í ályktuninni sem ber einfaldlega yfirskriftina „Ályktun um fiskeldi“.

Tonnið á 2,6 milljónir í Noregi

„Í Noregi fór nýlega fram uppboð á laxeldisleyfum. Þar seldist leyfið fyrir eitt laxeldistonn á tæpar 2,6 milljónir króna sem renna til ríkis og viðkomandi sveitarfélags. Samkvæmt þessu kostar leyfi fyrir 6.000 tonna laxeldi fyrir Laxa ehf. í Reyðarfirði 15,4 milljarða í Noregi og sama á við um Fiskeldi Austfjarða ehf. í Berufirði. Hér á landi eru sömu leyfi nánast ókeypis. Þessar staðreyndir sýna svart á hvítu hvernig Íslendingar láta norska eldisrisa hafa sig að féþúfu og ætla að fórna villtum laxastofnum til viðbótar sem þykja þó einstæðir og á heimsvísu. Hvað verður um orðspor Íslendinga á alþjóðavettvangi í umhverfsmálum í ljósi slíkra tíðinda?“

Draga lögmætið í efa

Í sömu ályktun er lögmæti fiskeldis í Berufirði dregið í efa. Um þetta segir í ályktuninni: „Við athugun hefur komið í ljós, að eldisiðjan í Berufirði á vegum Fiskeldis Austfjarða ehf. hefur ekki enn öðlast stöðvarskírteini og starfar í skjóli undanþágu skv. gömlum reglum, m.a. um búnað og umgjörð. Þá er hvergi getið um heimildir í leyfum fyrir sömu eldisiðju til þess að nýta frjóan fisk af erlendum uppruna til eldisins eins og skylt er skv. lögum og reglum. Sömuleiðis finnast hvergi í útgefnum leyfum fyrir laxeldisiðjuna í Berufirði heimildir til að losa fosfór í sjóinn sem er uppistaðan í spillandi úrgangi frá eldinu. Þá hefur sama eldisiðja aldrei farið í umhverfismat. Af þessu má ljóst vera að eldisiðjan í Berufirði er lögleysa, og trúverðugleiki stofnana, sem ábyrgð bera á útgáfu leyfa og eftirliti, er í molum og geta því tæpast talist marktækar.“

Allt eldi verði í lokuðum kerfum

Veiðifélag Breiðdæla gætir hagsmuna Breiðdalsár, sem er besta laxveiðiá á Austurlandi ef undan eru skyldar árnar í Vopnafirði. Nábýlið við sjókvíarnar bæði norðan og sunnan Breiðdalsvíkur, þar sem Breiðdalsá fellur til sjávar er mikil ógn í huga þeirra sem sóttu aðalfundinn og samþykktu þessa ályktun. Krefst fundurinn þess að allt eldi fari fram í lokuðum kerfum.

„Nú hafa verið gefin út leyfi fyrir 12 þúsund tonnum til eldis af laxi og regnbogasilungi í opnum sjókvíum á Austfjörðum. En sótt hefur verið um viðbótarleyfi fyrir 54 þúsund tonna eldi í austfirskum fjörðum. Hámark eldis í opnum sjókvíum samkvæmt útgefnu áhættumati Hafrannsóknastofnunar fyrir Austfirði eru 21 þúsund tonn. Við vörum við þessari ógn gagnvart lífríkinu og krefjumst, að allt eldi fari fram í lokuðum kerfum og bannað verði að nota frjóan fisk til eldis af útlenskum uppruna.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert