Það er ekki á hverjum degi sem leiðsögumenn þurfa að synda eftir stöngum viðskiptavina, en mikið er á sig lagt til að ná þeim stóru. Í kröppum dansi við stórlax stakk Árni Pétur, leiðsögumaður á Nesveiðum í Laxá í Aðaldal, sér til sunds eftir stöng veiðimannsins sem er 92 ára gömul bresk veiðikona.
„Steingrímur Baldvinsson í Nesi sagði fyrir margt löngu við erlendan veiðimann sem hann var leiðsögumaður fyrir: „The Laxa is a moody river but if you stick with it, it will reward you.“ Þetta eru orð að sönnu og þau hefur Lilla Rawcliffe fengið að reyna á eigin skinni síðustu daga. Hún var laxlaus eftir þrjá daga í veiði þegar hún koma að veiðistaðnum Vitaðsgjafa. Eftir fáein köst setti hún í fallega 92 sentímetra hrygnu sem hún landaði eftir snarpa baráttu.“ Svona byrjar sagan hjá Árni Pétri staðarhaldara á Nesveiðum af atburðum gærdagsins.
Lilla er 92 ára bresk veiðikona, sem eins og margur veiðimaðurinn hefur sína sérvisku. Hún vill ekki hafa meira en 50 metra af undirlínu og vill ekki nota bremsu á hjólin, heldur bremsar hún með lófanum. Skömmu eftir að 92 sentímetra fiskinum hafði verið landað setti Lilla í annan fisk. Hann var stór og öflugur og fór á hörðum spretti niður á. Þegar lítið er eftir af línu á hjólinu og ekkert hægir á fiskinum sér leiðsögumaður að eitthvað þarf að gera.
Hilmar Þór Árnason er sem betur fer á staðnum. Unglingspiltur sem er í leiðsögumannaþjálfun og getur staðið með veiðikonunni úti í ánni. Leiðsögumaðurinn Árni Pétur Hilmarsson grípur stöngina og hleypur á eftir fiskinum. „Það voru ekki margir vafningar eftir á hjólinu og ljóst að það varð að koma bremsunni á til að reyna að breyta leiknum. Við það að skipta um hönd á stönginni og stilla bremsuna á harðahlaupum í vatni fipaðist ég og missti stöngina út úr höndunum.“ Árni Pétur herti enn á hlaupunum en hafði ekki við stönginni sem fjarlægðist stöðugt, var eins og ör í vatninu.
„Það var bara eitt ráð eftir og það var að stinga sér á eftir stönginni.“ Hann náði loks stönginni og komst á fætur og saup hveljur í köldu vatninu. Bremsan komin á en sennilega hefur fiskinum orðið svo um busluganginn að hann hefur snúið við til að skoða hvað á gekk á.
Tíu mínútum síðar landaði Lilla laxinum, 24 punda hrygnu. Síðar á sömu vakt náði hún svo þriðja laxinum. „Þetta var fullkomið „hat trik” sem er nú ekki algengt í Laxá í Aðaldal. En jú vissulega er Laxá duttlungafull en getur launað ríkulega,“ sagði Árni Pétur í samtali við Sporðaköst í dag.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |