Sjóbleikjan hámaði í sig ufsaseiði

 Sjóbleikjuveiði á kajak í eyðifjörðum við Ísland. Er hægt að hugsa sér eitthvað rómantískara fyrir veiðimenn? Ólafur Tómas Guðbjartsson lét nýverið sigla sér í Jökulfirði þar sem hann sjósetti kajakinn sinn og þræddi strendur með flugustöng að vopni. Skemmst er frá því að segja að hann gerði mjög góða veiði og fann sjóbleikjuna nánast við alla læki og ár þar sem ferskvatnið blandaðist sjó.

Attachment: "Tófa nælir sér í sjóbleikju" nr. 10792

„Það var ótrúlega fallegt og róandi að vera þarna. Í eitt skipti kom smáhvalavaða inn í fjörðinn og var með mikil læti. Selir eru mjög forvitnir um mig og kajakinn og sama má segja um svartfuglinn. Teistuungi elti mig mjög oft og vildi gjarnan vera alveg upp við kajakinn,“ sagði Ólafur Tómas í samtali við Sporðaköst, nýkominn úr leiðangrinum.

„Ég fann sjóbleikju við flest alla smálæki sem runnu út í sjó. Ég kastaði litlum hvítum Nobblerum og bleikjan tók þá grimmt. Enda sá ég strax að hún var dugleg að gleypa í sig ufsaseyði í fjöruborðinu við lækina. Hún var einnig full af vorflugu og því virkaði líka vel að vera með flugur sem líktust henni, eins og til dæmis Beykir.“

Attachment: "Teistuungi fylgir veiðimanni" nr. 10791

Ólafur segir að sjóbleikjurnar hafi verið feitar og kraftmiklar. Sumar þeirra alveg silfurbjartar og lúsugar.

Refurinn fylgdist með hverju skrefi og fékk líka að smakka bleikju.

Hann vill benda mönnum á að það er nauðsynlegt að skola fluguhjólin og línuna vel eftir svona sjóveiði og þá með köldu vatni. „Sjálfur notaði ég hálfsökkvandi línu frá Rio og Sage hjól sem er vel þétt, svo ekki kemst sjór inn í bremsubúnaðinn. En til öryggis skola ég allt hjólið og þvæ línuna alla.“

Ólafur Tómas er mjög virkur á Snapchat, eins og lesendur Sporðakasta vita og þar er hægt að fylgjast með honum undir nafninum dagbokurrida.

Ólafur Tómas við kajakinn í Jökulfjörðum. Sjóbleikjan tók hvíta Nobblera …
Ólafur Tómas við kajakinn í Jökulfjörðum. Sjóbleikjan tók hvíta Nobblera og var silfruð og sumar lúsugar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert