Haraldur Stefánsson fyrrverandi slökkviliðsstjóri á Keflavikurflugvelli hefur tekið að sér að flytja tvo stórlaxa á heimaslóðir eftir áratuga dvöl erlendis. Í heimi stangveiðarinnar er Haraldur þekktur fyrir fluguna Black Sheep sem hann hannaði árið 1976 og notið hefur mikilla vinsælda laxveiðimönnum hér á landi og víða um heim. Að auki var Haraldur leiðsögumaður með mörgum erlendum veiðimönnum á þessum árum sem margir áttu eftir að verða góðir vinir hans og veiðifélagar.
Í samtali við Harald kom fram að hann og góðvinur hans Joseph P. Hubert frá Bandaríkjunum hefðu veitt í mörg ár saman á Íslandi frá árinu 1972. Hubert lést í hárri elli í Duluth í Mininesota í Bandaríkjunum síðastliðið haust og hafði óskað þess fyrir dánardægur sitt að Haraldur myndi fylgja tveimur stórlöxum sem hann veiddi á Íslandi aftur til síns heima.
Fram kom að Haraldur og Hubert hefðu þeir veitt í mörgum þekktum og minna þekktum laxveiðiám á landinu í þessum ferðum sínum en fyrsta áin sem þeir komu í var Laxá í Dölum um miðjan júlí árið 1972. Dalirnir tóku vel á móti Hubert því að fyrsti laxinn sem hann fékk í Laxá var 21 punda hængur, 102 cm að lengd, sem hann veiddi í Leiðólfsstaðakvörn á klassíska Jock Scott flugu. Hubert tók laxinn stóra með sér til Bandaríkjanna þar sem hann hafði hann upp á vegg hjá sér næstu áratugina.
Á laugardaginn var gerði Haraldur sér sérstaka ferð með syni sínum og laxinum stóra, sem þá var nýlega kominn til landsins í veglegum trékassa, þar sem þeir afhentu Jóhannesi Haukssyni formanni veiðifélags Laxár í Dölum laxinn til eignar 46 árum eftir að honum hafði verið landað úr Leiðólfsstaðakvörninni.
Hubert var einn nokkurra Bandaríkjamanna sem staðgreiddu veiðileyfi til í eina viku í júlí á ári til 10 ára í Grímsá í Borgarfirði árið 1973 sem þáverandi leigutaki notaði til að fjármagna byggingu á glæsilegu veiðihúsi. Þar fékk Hubert 25 punda lax í Hólmavaðskvörn á sínu fyrsta sumri við ána á fluguna Silver Rat. Tók Hubert þann líka með sér heim til Bandaríkjanna þar sem hékk upp á vegg næstu áratugina ásamt laxinum úr Dölunum. Að sögn Haraldar stendur til að fara með þann lax í veiðihúsið í Grímsá þann 2. ágúst næstkomandi þegar veiðifélagið fær hann til eignar.
Haraldur gat þess að lokum að margs væri að minnast frá þessum árum en hann sjálfur ætti orðið erfitt með að veiða sökum veikinda, en færi þó í Elliðaárnar næstkomandi fimmtudag með sonum sínum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |