Að sögn Hreggviðs Hermannssonar að Langholti við Hvítá í Árnessýslu hefur verið mjög góð veiði á hans svæði í allt sumar frá því að þar var opnað 20. júní. Kvaðst hann ekki muna eftir svona góðu veiðiári síðan á árunum fyrir 1990.
Sagði Hreggviður um 300 laxa vera komna á land nú þegar sem er mesta veiði fram til þessa á öldinni ef undan er skilið árið 2013, en það ár rétt náði heildarveiði sumarsins 300 löxum. Hreggviður sagði að mikill lax væri nú á svæðinu og svo virtist sem hann væri lagstur fyrir neðan fossana og væri búinn að koma sér þar fyrir, en oft og tíðum hefur laxinn átt það til að stoppa þar stutt við.
Veiðin hefði byrjað af miklum krafti strax á opnunardaginn 20. júní þegar 21 laxi var landað á stangirnar þrjár. Hreggviður kvaðst ekki hafa upplýsingar hvernig veiðin hefði verið á öðrum svæðum í Hvítá.
Hreggviður kvaðst bjartsýnn á framtíðina varðandi að til standi að hætta allri netaveiði á laxi frá og með næsta sumri i Ölfusá og Hvítá. Hann sagði að netaveiði á villtum laxi væri hluti af gamla tímanum.
Stærstu laxarnir sem dregnir hefðu verið að landi í sumar væru í kringum 15 pund. Hann sagði að Langholtssvæðið hefði áður fyrr verið þekkt fyrir marga stóra laxa sem þar veiddust á hverju sumri, en sá tími væri liðinn að þrír til fjórir laxar yfir 20 pund komi á land á sumri og eins og algengt var á árum áður.
Hann kvaðst ekki hafa skýringar á því og hefði sjálfur reynt að leita svara um þetta hjá gömlu Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun, en enginn vísindamaður þar getað svarað því með vitrænum hætti hvers vegna þessi fækkun stórlaxa hafi orðið.
Aðspurður sagði Hreggviður að lokum að megnið af veiðinni kæmi á maðk, en margir reyni líka að veiða á fluguna, en þá ættu menn það til að missa talsvert mikið og sérstaklega þá stóru því þarna er áin vatnsmikil og straumhörð sem veitir sterkum löxum góða aðstoð við að losna af agni veiðimanna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |