Veiðifélagið Fish Partner hefur gert átta ára samning um leigu á víðfeðmu veiðisvæði sem gengur undir nafninu Blöndukvíslar. Um er að ræða sjö ár sem falla í Blöndulón. Í ánum má finna bæði bleikju og urriða. Árnar eru Seyðisá, Beljandi, Þegjandi, Kúlukvísl og Stórilækur vestan Blöndu og Herjólfslækur og Haugakvísl austan Blöndu. Blöndulónið sjálft fylgir með og allir lækir sem í það renna.
Fram til þessa hefur svæðið ekki verið mikið nýtt en tilraunaveiðar hafa staðið yfir í sumar á vegum Fish Partner. Hafa þær veiðar gengið ágætlega og innan um eru stórir fiskar. Stærsti fiskurinn sem veiddist í tilraunaveiðunum var 65 sentimetra urriði en einn yfir 70 sentimetra sást í Haugakvísl.
„Þetta er fyrst og fremst svæði fyrir þá sem hafa gaman af að ganga og leita að fiski. Þarna er hægt að rekast í mjög stóra fiska en það þarf að hafa fyrir þessu,“ sagði Kristján Páll Rafnsson, einn eigenda Fish Partner í samtali við Sporðaköst.
Samtals eru átta stangir á svæðinu og er svæðið mjög fjölbreytt og bakkalengd mikil.
„Við finnum mikinn áhuga frá erlendum veiðimönnum sem vilja komast í silung á skikkanlegu verði. Þetta eru mikið veiðimenn frá Skandinavíu sem eru að leita að ævintýrum og ósnortinni náttúru. Þetta eru upp til hópa flinkir veiðimenn sem eru að leita að áskorunum. Blöndukvíslar eru einmitt eitthvað sem hentar þessum hópi veiðimanna.“
Kristján segir að öllum fiski sé sleppt á svæðinu og einungis er heimillt að veiða á flugu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |