Sjóbleikjan fyrir norðan er mætt. Árnar í Eyjafirði og á Tröllaskaga eru komnar vel í gang og þar er ágætisveiði. Steingrímur Sævarr Ólafsson er í dag að veiða Ólafsfjarðará og hefur undanfarna daga veitt Eyjafjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og Héðinsfjarðará. Hann segir bleikju komna í allar árnar og hún sé þegar orðin nokkuð dreifð en vonast eftir nýrri sendingu á næsta flóði. „Bleikjan er vel haldin, hún er væn og hún er í tökustuði,“ sagði Steingrímur í samtali við Sporðaköst.
Stærsta bleikjan sem Denni, eins og hann er oft kallaður, hefur fengið í þessum túr er 65 sentimetra bleikja sem hann veiddi í Svarfaðardalsá. „Svo náði ég einni 57 sentimetra í Hörgá og það þótti mér mjög vænt um. Ég sleppi mestu af því sem ég er að veiða. Fjölskyldunni finnst reyndar nóg um og langar í meiri bleikju, en ég tek aldrei meira en ég torga,“ sagði Steingrímur. Hann var í hléinu að undirbúa sig fyrir seinni vaktina í Ólafsfjarðará.
„Mér finnst hún svakalega skemmtileg. Þar er ekki stærsta bleikjan eða fallegasta landslagið, en hún hefur eitthvað sem togar alltaf í mig.“ Hann setti í lax í Ólafsfjarðaránni í morgun en sá sleit grannan silungatauminn eftir fimmtán mínútur. „Það er óvenjulegt að ég veit um tvo aðra veiðimenn sem eru búnir að setja í laxa í ánni. Vanalega eru menn ekki að setja í laxa fyrr en undir loks sumars. Ætli þetta sé ekki alltaf sami fiskurinn,“ sagði hann sposkur. Laxinn tók bleika Stirðu og Denni vill gjarnan fá hana aftur ef einhver landar laxi með slíkri flugu í Ólafsfjarðará.
Hann veiðir þessar ár andstreymis og með dropper. Hann er með Pheasant tail og Héraeyra sem dropper. Denni telur þetta bestu blönduna. Svo hefur Stirða líka verið að gefa honum veiði, sérstaklega í Svarfaðardalsá og er líka skæð í Ólafsfjarðaránni.
„Árnar eru vatnsmeiri en almennt gerist á þessum árstíma og maður hefur þurft smá lagni við þetta. Veiðistöðunum hefur fækkað og ég hef reynt að nálgast árnar hreinlega eins og ár sem maður hefur ekki veitt áður, því oft eru hefðbundnir tökustaðir of stríðir. Þá þarf maður að lesa vatnið og kasta á staði sem manni líst vel á. Það er svo sterkur í manni vaninn og við þessar aðstæður þarf að komast út úr honum. Þetta hefur í það minnsta gefist mér vel. Mér verður í þessu samhengi hugsað til þess sem Kolbeinn Grímsson heitinn sagði. Fiskurinn veit ekkert hvar þessar merkingar eru uppi á landi.“
Steingrímur hefur veitt á svæði fjögur í Eyjafjarðará undanfarin ár. Honum finnst veiðistöðum hafa fækkað og horfir þá til aurskriðunnar miklu sem féll árið 2011. „Mér finnst eins og aurinn sé að berast niður eftir ánni og fylla í veiðistaði. Þetta er alla vega mín upplifun. Þar sem ég fann hana uppi á fjórða svæði var mjög flottur og silfraður fiskur og það er alltaf jafngaman að takast á við drottningarnar í Eyjafjarðará.“
Hann telur mjög mikilvægt að veiðimenn gangi um þessar perlur af virðingu og nærgætni og taki sér bara nóg til matar. „Fínt að taka bara góða selfí en ekki láta þær lenda neðst í frystikistunni.“
Þar með var Denni rokinn á uppáhaldssvæðið sitt í dag, Ólafsfjarðará.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |