101 árs gamall öldungur gerði sér lítið fyrir á þriðjudaginn og landaði 32 punda laxi úr ánni Vikja í Sognsfirði í Noregi.
Það var Odd Borlaug sem fékk laxinn stóra mjög neðarlega í ánni þar sem hún rennur í gegnum þorpið Vikøry og notaði koparlitaðan 27. gramma spún.
Fram kemur að Odd hafi lítið gefið eftir í átökunum við stórlaxinn sem tók mjög neðarlega í ósi árinnar. Lét sá stóri ófriðlega allan tímann og strikaði upp og niður ána og út í sjó í nokkur skipti og þá nánast tæmdi alla línuna af veiðihjóli Odds nokkrum sinnum.
Gaf Odd þó lítið eftir í þeirri baráttu þrátt fyrir háan aldur en fékk þó aðstoð frá öðrum veiðimönnum í nágrenninu við að fylgja laxinum eftir þegar hann tók langar rokur. Eftir mikinn barning í rúman klukkutíma fór svo að Odd hafði betur og landaði loks þeim stóra með aðstoð frá Audun Holen og var laxinn mældur 116 cm og vigtaður 15,8 kíló.
Odd hefur veitt á stöng svo lengi sem hann man eftir sér en byrjaði þó ekki að veiða lax fyrr en 75 ára og stærsti laxinn hans fram að þessu er 8,5 kíló. Hefur hann verið duglegur að mæta til veiða við ána yfir sumarið síðustu árin á rafmagnsknúnu fjórhjóli sínu.
Fyrir um ári komu aðrir veiðimenn við ána honum á óvart og héldu upp á 100 ára afmæli hans við ós árinnar og var sýnt frá því í norska ríkissjónvarpinu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |