Mjög góð veiði er á vatnasvæði Rangánna, á Suðurlandi. Þannig var metdagur í Eystri-Rangá síðastliðinn föstudag. Þá var 147 löxum landað. Sama má segja um önnur svæði neðar og nær sjó. Þannig lönduðu veiðimenn á austurbakka Hólsár 49 löxum á tveimur dögum á sex stangir. Á því svæði hafa nú verið bókaðir um 500 laxar. Stefán Sigurðsson var með veiðimenn á svæðinu og sagði hann mikið af fiski á ferðinni í Hólsá. Því má ljóst vera að ekki verður lát á mokveiðinni í Rangá eystri á næstunni.
Veiðin á svæðum Hreggnasa hefur gengið ágætlega undanfarið. „Síðastliðin vika hefur verið þurr á okkar vatnasvæðum og vatn fallandi samfara minnkandi göngum, enda liðið inn í ágústmánuð. Veiðin í Laxá í Kjós í viku sem leið var góð, eða yfir 100 laxar. Byrjun nýrrar viku byrjaði þó mun hægar en sú fyrri enda sólfar mikið og hraðminnkandi vatn. Hefðbundið ágústástand,“ sagði Haraldur Eiríksson hjá Hreggnasa í samtali við Sporðaköst.
Laxá í Dölum hefur verið gjöful í sumar og notið góðs af betri vatnsbúskap þetta rigningasumarið. Veiðin hefur þó tekið nokkurn afturkipp þar sem ekki hefur rignt í heila viku, að sögn Haraldar. „Þó var síðasta holl með 97 laxa sem er frábær veiði.“
„Grímsá er sú á okkar sem heldur hvað bestum dampi í þurrviðri. Áin hefur mikinn vatnsforða og verður nær aldrei vatnslítil. Því má segja að núverandi veðurfar henti nokkuð vel. Ljóst er að göngur eru að mestu yfirstaðnar, og efstu svæðin að gefa best sem von er í ágústmánuði,“ sagði Haraldur.
Af öðrum ám sem Hreggnasi er með nefndi Haraldur að Svalbarðsá hefði verið ágæt, sérstaklega ef horft væri til þess að þetta landsvæði er einna rólegast á yfirstandandi vertíð. Þar hafa um 150 laxar veiðst.
Sömu sögu er að segja úr Hafralónsá. Þar hefur veiði verið ágæt en heildartölu vantar.
Krossá á Skarðsströnd hefur gefið um 60 laxa á stangirnar tvær.
Brynjudalsá er á svipuðu róli.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |