Auka vöktun vegna erfðablöndunar

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur.
Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Hafrannsóknastofnun er að stórauka vöktun á laxveiðiám á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum til að fylgjast með eldislaxi og mögulegri erfðablöndun við villta laxastofna. Nú þegar hefur erfðablöndun verið staðfest í ám á Vestfjörðum. Í skýrslu fjögurra sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar þar sem erfðablöndun villtra laxa í nágrenni við eldissvæði á Vestfjörðum var könnuð, mátti greina erfðablöndun í sex ám. Botnsá í Tálknafirði og Sunndalsá í Trostansfirði, inn af Arnarfirði, báru skýr merki um að erfðablöndun hefur átt sér stað. Skýrslan var birt í fyrra.

„Við erum að fjölga teljurum til að fylgjast grannt með þessu. Það er kominn teljari í Laugardalsá með myndavél og sama er að segja um Krossá á Skarðsströnd og Vesturdalsá. Við erum líka að horfa á að setja myndavélateljara í Langadalsá, en það er nokkurt verkefni og þar þurfum við að steypa þröskuld til að koma teljaranum fyrir,“ sagði Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur í samtali við Sporðaköst. Sigurður er einn höfunda fyrrnefndrar skýrslu um erfðamengun. Hann á von á að fleiri myndbandsteljurum verði bætt við á næstu misserum.

Myndbandsteljarar eru fyrst og fremst hugsaðir til þess að fylgjast með hvort eldisfiskur er að ganga í árnar. Sigurður Már segir jafnframt að búið sé að taka mikið af erfðasýnum úr laxi á Vestfjörðum og Vesturlandi, til að hafa grunnstöðuna á erfðafræðinni skráða og á hreinu. „Ef við verðum vör við breytingu á erfðaefni þá verður að grípa til aðgerða.“

Hvaða aðgerða er hægt að grípa til?

„Það er í sjálfu sér erfitt, en stundum er hægt að loka hreinlega ám við laxastiga og vakta kistuna. Þetta væri til dæmis hægt í Laugardalsá. Þar mætti loka kistunni og hirða úr þá fiska sem væru óæskilegir. Þetta er gert í einhverjum ám í Noregi en er gríðarleg vinna og kostar mikla peninga.“

Robert Nowak með nýgenginn lax sem hann veiddi í Urriðafossi …
Robert Nowak með nýgenginn lax sem hann veiddi í Urriðafossi í Þjórsá. Erfðablöndun gengur ekki til baka. Hún er varanleg. Ljósmynd/Aðsend

Erfðablöndun er varanleg

Sigurður Már segir að eftir ítarlegar rannsóknir liggi fyrir greinagóð mynd af íslenska laxastofninum. Hann sé verulega frábrugðin öðrum stofnum í Evrópu og hafi þróast með nokkuð öðrum hætti. „Innan Íslands er landfræðilegur skyldleiki milli stofna og einstakra áa, en hver á er með sinn stofn og hann er einstakur og sker sig frá nágrannaám.“

Fjárframlög hafa verið aukin til stofnunarinnar til vöktunar og segir Sigurður Már að staðan nú sé allt önnur og hægt að stunda nauðsynlegt eftirlit. „Við höfum ekki áður upplifað að svo mikill kraftur sé settur í rannsóknir á laxi.“

Sigurður Már segir að í Noregi sé víða orðið slæmt ástand þegar horft er til erfðablöndunar á laxi. Hann segir gríðarmikið átak hafa verið sett í gang þar hin síðari ár til að fylgjast með þessu. Hins vegar sé alveg ljóst að margar ár í Noregi séu illa farnar. „Það er líka alveg ljóst að þessir stofnar munu ekki jafna sig. Segjum að eldinu verði hætt, þá fara stofnar ekki aftur í upprunalegt horf. Breyting af þessu tagi er varanleg. Okkar verkefni hér á Íslandi er að passa að þetta fari ekki í þennan farveg.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert