Veiðin á efsta svæðinu í Eyjafjarðará hefur verið afbragðsgóð frá því opnað var nú um mánaðamótin. Í gær kom þar risableikja á land.
Feðgarnir Ágúst Ásgrímsson og Ágúst Máni Ágústsson voru á veiðum á svæði fimm og alls lönduðu þeir rúmlega 20 fiskum. Sú stærsta var engin smásmíði eða 77 cm löng hrygna sem Ágúst Máni setti í. Var þetta mikill slagur og hafðist hrygnan ekki í land fyrr en eftir 20 mínútna baráttu. Er þetta stærsta bleikjan sem komið hefur á land úr ánni í sumar.
Heilt yfir var þetta vænn fiskur hjá þeim feðgum og landaði til að mynda Ágúst Máni annarri stórbleikju sem var 67 cm.
Aðeins er veitt í mánuð á tveimur efstu svæðum árinnar frá 1. ágúst til loka mánaðarins. Skylt er að sleppa öllum bleikjum á efstu tveimur svæðunum og er þetta gert í því skyni að ná veiðinni upp úr margra ára öldudal og hafa menn á síðustu árum orðið varir við talsvert mikil batamerki.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |