Skýringin á smálaxaskorti fyrir norðan?

Glímt við smálax í Kjölstreng í Vesturá í Miðfirði.
Glímt við smálax í Kjölstreng í Vesturá í Miðfirði. ÞGÞ

Svo kann að vera að laxaseiðaárgangurinn 2017, sem átti að ganga sem smálax í sumar, hafi hreinlega ekki náð nægum þroska í fremur lágum vatnshita síðustu ár. Þetta þýðir að seiðin hafi ekki farið til sjávar fyrr en í vor og getur jafnframt skýrt staðbundin áhrif.

Smálaxagöngur í laxveiðiár í sumar hafa verið afskaplega misjafnar eftir landsvæðum. Þannig hefur Suður- og Vesturland mátt vel við una og hafa á köflum verið kröftugar göngur. Norðurlandið hefur fengið óvenjulítið af smálaxi og sérstaklega hefur þetta verið áberandi í húnvetnsku ánum.

Guðni Guðbergsson sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, segist ekki vera kominn með öll nauðsynleg gögn í hús til að meta hlutlægt hver ástæðan fyrir þessu kunni að vera. „Taugakerfið segir manni þó að seiðaárgangarnir sem voru að ganga út í fyrra og vatnshitinn í ánum þegar þau voru að vaxa spili þarna stærsta hlutverkið. Meðalaldur seiða hefur verið að hækka vegna kólnunar alveg frá árinu 2003 til 2015. Við fengum fremur lélega hrygningu bæði 2012 og 2014 og það skiptir máli. Í mínum huga er stóra spurningin í þessu hversu stór hluti seiðanna hafi náð að fara út í fyrra eða hvort hluti þeirra hafi ekki náð göngustærð og því ekki farið fyrr en nú í sumar,“ sagði Guðni Guðbergsson í samtali við Sporðaköst.

Kólnun á vatnshita viðvarandi frá 2003

Sú spurning sem Guðni vísar hér til er hvort laxaseiðin sem áttu að koma sem smálax í sumar, hafi hreinlega ekki náð þroska til að ganga til sjávar í fyrra. Þau seiði hafa þá þurft lengri vaxtartíma og beðið þar til í sumar. „Það getur alveg verið að það hafi staðið þannig á að einhver hluti seiðanna hafi ekki náð þroska og það kann líka að skýra þessi staðbundnu áhrif. Við vitum að það er kaldara fyrir norðan en á Vestur- og Suðurlandi. Að sama skapi hefur verið mjög hlýtt á norðausturhorninu í sumar og þess vegna getur orðið spennandi að sjá hvað gerist þar næsta sumar. Þar getur sveiflan orðið hvað mest.“ Guðni segir hins vegar að sú mikla kólnun á meðalvatnshita yfir sumarmánuðina sem verið hefur viðvarandi frá 2003 til 2015 gerði að verkum að seiði hafi almennt bætt við sig einu ári í ánni áður en þau ganga til sjávar. Munur á hitafari milli áa eða landsvæða hefur þar með áhrif á það hvenær seiðin ná að ganga til sjávar. „Eftir því sem vaxtartíminn í ánum er lengri eru líkur til þess að afföll aukist sem hefur þá áhrif á fjölda seiða. Það er líka alþekkt staðreynd að laxaseiði í ám fyrir norðan eru ári lengur í fersku vatni en á Vestur- og Suðurlandi,“ sagði Guðni.

Það er því ekki ástæða til að örvænta að skilyrði í sjó hafi tekið stóran toll, því greinilegt er að smálaxinn sem er að koma er vel haldinn. Þetta má sjá í mörgum ám á Vestur- og Suðurlandi og í raun má segja sömu sögu af þeim smálaxi sem er þó að ganga fyrir norðan. Ef smálaxinn er vænn hafa þeir vaxið vel í sjó og þá hafa afföll þar jafnan verið minni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert