Reykjadalsá í Reykjadal fyrir norðan hefur gefið 27 laxa og mikið magn urriða. Þó svo að laxatalan sé ekki há þá lenti Helgi Helgason í ævintýri í ánni fyrstu vikuna í ágúst. Þegar hann kom til veiða var búið að veiða tólf laxa í Reykjadalsá. „Ég var ekki við veiðar samfleytt, heldur skaust ég dagpart þegar var laust. Mér telst til að ég hafi verið að veiða samtals í fjóra veiðidaga.“ Helgi og fjölskylda lönduðu þrettán löxum á þessum tíma og tvöfölduðu því í raun sumarveiðina. Sporðaköstum er kunnugt um tvo laxa til viðbótar eftir þetta.
Helgi hefur áratuga reynslu af að veiða í Reykjadalsá. Hann segir stöðuna á ánni einkar góða núna. „Við sáum laxa í tíu veiðistöðum og lönduðum fiskum úr sex stöðum. Auðvitað var eitthvað um smálax en við vorum líka að setja í mjög fallega tveggja ára fiska.“
Helgi segir að urriðinn í Reykjadalsá sé pattaralegri en oft áður. „Ég tengi þetta því að mér finnst mýið hafa verið að aukast síðari ár í Reykjadalnum. Þessir fiskar sem við vorum að setja í voru virkilega flottir. Mikið af fiskinum var á bilinu 35 til 45 sentímetrar en við fengum líka stærri. Ætli við höfum ekki landað einhverjum fimmtíu urriðum.“
Öllum laxinum var sleppt og megninu af urriðanum. „Við átum nokkra en flestir fengu að synda áfram,“ sagði Helgi í samtali við Sporðaköst.
Helgi og félagar fengu alls konar veður. En það tók alveg fyrir tökuna þegar sólin skein og sumarblíða lagðist yfir dalinn. „Við vorum að fá hann til að taka þegar hvessti og kólnaði.“ Flestir laxarnir tóku hálftommu þýska Snældu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |