Stærsti lax sumarsins kom á land í Kjarrá í Borgarfirði á miðvikudaginn og veiddist á litla flugustöng og pínulítið „míkró-hitch“.
Þýski stórveiðimaðurinn Erik Koberling hefur marga fjöruna sopið við veiðar í íslenskum laxveiðiám þrátt fyrir ungan aldur en hann er sonur þýska myndlistamannsins Bernd Koberling sem mikill Íslandsvinur og hefur veitt hér á landi svo áratugum skiptir. Síðustu árin hefur Erik dvalið nánast allt sumarið við Kjarrá í Borgarfirði þar sem hann hefur starfað sem leiðsögumaður.
Síðdegis á miðvikudaginn fór hann með Sigríði Þorgeirsdóttur ofarlega í Kjarrá á veiðistaðinn Efra-Rauðaberg sem er mjög ofarlega í ánni og sem flestir veiðimenn láta sér duga að ganga upp að.
Sigríður var með léttar græjur, litla 9 feta flugustöng fyrir línu númer fjögur. Þar sem áin er orðin talsvert vatnslítil eftir langvarandi þurrka að undanförnu var ákveðið að byrja með svokallað „míkró-hitch“, en um er að ræða örlitla plasttúpa sem er látin gára á yfirborðinu og var valinn öngull var af minnstu gerð númer 18.
Fljótlega sýndi stórlax gárutúpunni áhuga og kom á eftir henni upp á yfirborið en tók hana ekki. Í næsta kasti kom hann hins vegar með miklu offorsi og skellti sér á hana með miklum látum. Að sögn Eriks tók við tók ævintýraleg barátta þar sem laxinn fór marga kollhnísa eftir yfirborðinu niður eftir hylnum og tók þar langar rokur fram og til baka.
Tók sá stóri svo á það ráð að leggjast djúpt í hylinn þar sem hann lá lengi og var ekki bifað á svo léttar græjur. Tók Erik þá til þess ráðs að grýta hylinn með grjóti og við það fór laxinn á mikla hreyfingu og niður allan hyl og yfir brotið neðst þar sem fyrir neðan er mikið stórgrýti, en þar tókst Erik að koma háfnum undir hann eftir rúma klukkustundar baráttu.
Reyndist þetta vera leginn 98 cm hængur sem Erik sagði að hefði litið út eins og krókódíll og er stærsti laxinn sem landað hefur verið úr Kjarrá í sumar. Mörgum löxum á bilinu 95 til 97 cm hefur verið landað þar áður í sumar og hafa menn orðið varir við talsvert mikla fjölgun stórra laxa þar á seinni árum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |