Veiðivötn nálgast 20.000 fiska

Urriðar úr Litlasjó. Þessir tóku allir spún.
Urriðar úr Litlasjó. Þessir tóku allir spún. Ljósmynd/Aðsend

Stangaveiðitímabilinu lýkur formlega í Veiðivötnum á Landmannaafrétti á miðvikudag. Stefnir í að veiðin fari í ríflega tuttugu þúsund fiska, sem flokkast sem gott meðalár og í samræmi við síðustu ár, jafnvel ívið meira. Síðustu tölur sem birtar voru er áttunda veiðivikan og þá var heildartalan komin í 18.510 silunga. Áttunda vikan gaf 1.219 fiska og var veiðin áberandi mest í Litlasjó og flestir veiðimenn voru þar við veiðar. Litlisjór gaf 452 urriða þessa viku. Nokkuð var um stórfiska um og yfir átta pund.

Í sumar hafa flestir fiskar fengist í Snjóölduvatni eða tæplega 4.900. Næstflestir fiskar hafa svo veiðst í Litlasjó eða tæplega 4.500.

Gunnar Ólafur Kristleifsson með góðan afla úr Veiðivötnum.
Gunnar Ólafur Kristleifsson með góðan afla úr Veiðivötnum. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti fiskurinn er 12 punda urriðinn sem veiddist í vor í Hraunvötnum. Besta meðalþyngdin er hins vegar úr Pyttlum eða 3,3 pund.

Þegar kemur að fjölda fiska hefur bleikjan vinninginn fram yfir urriðann. Tæplega tíu þúsund bleikjur hafa veiðst en urriðarnir eru tæplega 8.600.

Síðustu daga hefur veiði verið ágæt og einn þeirra sem var við veiðar fyrr í mánuðinum er Gunnar Ólafur Kristleifsson. Hann var að koma úr sínum þriðja túr í Veiðivötn í sumar. „Það er mikið farið að róast yfir þessu. Þetta er svona kropp og svo finnur maður staði þar sem hann er í stuði og þá getur maður gert góða veiði,“ sagði Gunnar í samtali við Sporðaköst.

Búið að flaka, pakka og merkja. Gunnar nær sér í …
Búið að flaka, pakka og merkja. Gunnar nær sér í soðið í Veiðivötnum og hann leggur mikið upp úr því að ganga vel um bráðina. Ljósmynd/Aðsend

Hann nefndi menn sem voru að veiða nokkrum dögum á undan honum sem voru á Hrauninu í Litlasjó og þeir fengu eina kvöldstund 26 urriða og allt á Nobblera, bæði svarta, hvíta og appelsínugulan. Fiskurinn var á bilinu tvö til sex pund.

„Þetta snýst um að hitta á þetta. Ég er bara að veiða í soðið. Ég er ekki mikið að sleppa þessu. Fæ mér í soðið og aðeins fer í reyk og svo gref ég líka. Ég er búinn að fá í soðið í sumar.“

Síðasti túr hjá Gunnari gaf níu fiska. Fjóra á spún og fimm tóku beitu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert