Tuttugasti tuttugupundarinn veiddist í Laxá í Aðaldal á Nesveiðum í síðasta holli. Það var Eiður Pétursson sem setti í og landaði 105 sentimetra löngum laxi og var ummálið 55 sentimetrar. Þessi stórlax tók í Höfðahyl og flugan var heimahnýttur Sunray – Johnson & Johnson. Steingrímur Stefánsson háfaði og mældi fyrir Eið.
„Hinn hundraðkallinn veiddi Ingvi Örn Ingvason, í Presthyl,“ sagði Árni Pétur Hilmarsson í samtali við Sporðaköst. Árni Pétur segir að hollið hafi landað alls sautján löxum og hafi áin aðeins tekið við sér aftur eftir að hreinlega „slokknaði á henni“ um tíma. Hann vonast nú eftir að þegar haustið læðist að verði fiskurinn árásargjarnari og veiðin aukist á nýjan leik.
„Það er gaman að segja frá því að Ingvi Örn Ingvason er sonur Ingva Hrafns Jónssonar og er þriðji ættliðurinn til að landa tuttugu pundara hér í Nesi.“ Bróðir Ingva, Hafsteinn Orri, fékk einnig tuttugu pundara árið 2016 og tók sá hálftommu Frigga. Ingvi Örn tók sinn á tommu Frigga í Presthyl eins og fyrr segir. Pabbi strákana, Ingvi Hrafn, landaði tuttugu punda stórfiskinum sínum 1978 og tók sá Hairy Mary númer fjögur. Tuttugu árum áður, eða 1958, hafði pabbi hans, og afi strákanna, Jón Sigtryggsson, landað tuttugu punda fiski á sama stað, eða á Höfðabreiðu.
Það er greinilegt að stórlaxagenin ganga ekki aðeins á milli fiska. Hér eru stórlaxaveiðigenin að skila sér milli ættliða. Það eina sem hefur breyst á öllum þessum árum er að nú er laxinum sleppt og eingöngu er veitt á flugu í Aðaldalnum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |