Góð veiði er í Vatnamótunum fyrir austan Kirkjubæjarklaustur þar sem Skaftá mætir meðal annars Fossálum, Breiðbalakvísl og Hörgsá. Veiðihópur sem var við veiðar í gær sá mikið af fiski og fyrir hádegi lönduðu þeir tíu fiskum og var sá stærsti tíu pund.
Hafliði Halldórsson veiðimaður var við veiðar á neðra svæðinu og sagði hann; „Hér er allt fullt af fiski. Ég kom hérna um daginn og stökk út úr bílnum og landaði tveimur tólf punda bara við bílinn.“
Skaftárhlaupið hafði engin teljandi áhrif á veiði á svæðinu, segir Ragnar Johansen á Hörgslandi sem annast veiðileyfasölu í Vatnamótin. „Þetta var kannski dagur eða rúmlega það. En þetta var fljótt að jafna sig og nú eru skilin mjög skörp og því gott að eiga við veiðar,“ sagði Ragnar í samtali við Sporðaköst.
Ragnar segir fiskinn fara stækkandi á svæðinu og þakkar það helst sleppingum í vorveiðinni. „Hér var algert met í vorveiðinni. Yfir níu hundruð fiskum landað. Oft hefur þetta verið í kringum fjögur til fimm hundruð en nú var algert met. Það er skylda að sleppa fiskum yfir þrjú pund í vorveiðinni, en engar kröfur eru gerðar um sleppingar í sumar og haustveiðinni,“ sagði Ragnar. Hann segir þó færast mjög í vöxt að menn sleppi sjóbirtingum og þá sérstaklega hrygnunum.
Víðar berast fréttir af því að sjóbirtingurinn sé farinn að ganga af nokkrum krafti. Þannig er Jón Kristinn Jónsson ásamt félögum sínum við veiðar í Jónskvísl og Sýrlæk í Landbroti, rétt neðan Kirkjubæjarklausturs. Jón Kristinn sagði í samtali við Sporðaköst að víða mætti sjá fiska velta sér og þeir hafa séð nokkurt magn af fiski á helstu veiðistöðum. Jón Kristinn landaði þessum fallega sjóbirtingi og það sem meira er að hann tók flugu vikunnar sem kynnt var til leiks fyrir helgi. „Hann tók fluguna Bleika og bláa, sem var einmitt fluga vikunnar. Ég fór og keypti hana í Veiðihorninu og hún gaf.“
Ekki eru komnir margir fiskar í bók í Jónskvísl en sú staðreynd að þeir félagar eru að sjá sjóbirting víða gefur tilefni til bjartsýni enda er nú runninn upp hefðbundinn sjóbirtingstími í Skaftafellssýslum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |