„Ég svíntók á honum og var ekki nema fimmtán mínútur að landa honum,“ sagði Jóhann Hafnfjörð um stórlaxinn sem hann landaði í Laxá í Aðaldal á Nesveiðum, nú eftir hádegi. Fiskurinn tók Munro Killer númer 14. „Krókarnir voru alveg á síðustu metrunum, farið að réttast vel úr öðrum og hinn byrjaður að svigna. En það tókst að háfa hann,“ sagði Jóhann kampakátur í samtali við Sporðaköst.
Fiskurinn veiddist í Beygjunni og segir Jóhann að hann muni ekki eftir öðru eins sjónarspili með stórlax. „Hann stökk sjö sinnum og það var mikilfenglegt að sjá þennan fleka hreinsa sig og skella í vatnið.“ Jóhann segist alltaf taka fast á þessum fiskum. „Margir eru hræddir við að missa þá í slý eða eitthvað slíkt en ég tek bara á þeim.“
Það veiðast ekki margir fiskar á dag í Laxá í Aðaldal þessar vikurnar. En hlutfallið af þessum allra stærstu er ótrúlega hátt. Jóhann fékk tvo „hundraðkalla“ í fyrra og sagði í dag léttur í bragði að hann ætlaði að taka annan í Vitaðsgjafa í kvöld.
Fiskurinn mældist 104 sentimetrar og 51 sentimetri í ummál. „Þetta er svona 23 pundari,“ sagði Jóhann.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |