Stórlaxaárnar í Þistilfirði hafa skilað góðri meðalveiði það sem af er sumri. Svalbarðsá er að verða komin með þrjú hundruð laxa og Sandá er komin vel yfir tvö hundruð fiska og svipaða sögu er að segja af Hafralónsá. Þessar ár eiga það sameiginlegt að þangað leita veiðimenn til að setja í stórlaxa. Tveir fiskar hafa veiðst í Svalbarðsá í sumar sem eru meira hundrað sentímetrar.
Veiðimenn sem voru í Svalbarðsá í nýliðinni viku segja að mikið sé af hængum sem eru yfir 90 sentímetrar. Jón Þorsteinn Jónsson var við veiðar fyrir norðan og landaði einum slíkum í Svalbarðshyl. 95 sentímetra hæng sem tók Collie dog númer 14 í long tail útgáfu.
Nuno Alexandre Bentim Servo sem veiðir mikið með Jóni Þorsteini var reyndar ekki í Svalbarðsá að þessu sinni, en eftir að Jón Þorsteinn birti mynd af sér með hæginn íturvaxna var leitað til Nuno um fréttir af viðureigninni. Hann sagðist ekki hissa á þessu enda væru einkunnarorð þeirra félaga; „Aldrei á núlli – alltaf bestir.“
Þegar náðist svo í Jón Þorstein sjálfan sagði hann að það væri mikið af hængum sem væru níutíu plús sentímetrar í Svalbarðsá. „Við settum í þrjá svoleiðis fiska í túrnum.“
Laxahylur í Svalbarðsá hefur gefið mikið af fiski í sumar enda einn af lykilveiðistöðum árinnar. Þar hafa nokkrir stóri veiðst. Þórður Ingi Júlíusson, leiðsögumaður veiddi 97 sentímetra hæng í Laxahyl 23. júlí í sumar og var það mjög leginn fiskur. „Þessi hefur örugglega komið í ána í maí,“ sagði Þórður í samtali við Sporðaköst.
Guðmundur Auðunsson lenti líka í ævintýrum í Laxahyl þegar hann setti í sinn stærsta lax, til þessa. Laxinn tók með offorsi hjá honum og fór í loftköstum. Stökk hann svo svakalega að hann lenti á þurru hinum megin við ána og varð að draga hann út í aftur til að ljúka viðureigninni. En eins og myndin af Guðmundi ber með sér lauk henni farsællega.
Nú fer í hönd tími sem er í uppáhaldi hjá mörgum veiðimönnum. Þegar stóri hængurinn verður árásargjarn og tekur þá gjarnan frekar flugur veiðimanna. Það er oft á þessum tíma sem þeir stærstu veiðast.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |