Nú er að skýrast heildarmyndin í laxveiðinni. Norðurlandið kom einstaklega illa út í veiði þetta sumarið og þá sérstaklega Húnaþing. Laxá á Ásum, Víðidalsá og Vatnsdalsá eru með mun minni veiði en í fyrra og sérstaklega þær tvær síðastnefndu.
Laxá í Aðaldal olli vonbrigðum og var veiðin einungis 608 laxar og er það annað lélegasta sumar í Laxá frá árinu 1975, eða eins langt aftur og tölur angling.is ná en það er vefur Landssambands veiðifélaga sem heldur utan um tölfræði í laxveiðiám. Árið 2012 var það lélegasta sem veiðimenn í Laxá hafa upplifað en þá veiddust aðeins 428 laxar allt sumarið á sautján stangir. Laxá er þó í fyrsta sæti þegar kemur að fiskum yfir 100 sentimetrum og er hvergi á landinu að finna annað eins magn af metfiskum í einni á. Sautján stangir eru í Laxá og er hlutfallið á stöng tæpir 36 laxar, sem verður að teljast virkilega róleg veiði.
Þegar horft er til Suðurlandsins er annað uppi á teningnum. Þar var veiðin góð mjög víða, eins og í Þjórsá, Elliðaánum og Affalli svo einhverjar séu nefndar.
Ef skoðaður er topp tíu listinn yfir þær ár sem skilað hafa flestum löxum, en deilt er í laxafjölda með fjölda stanga á umræddu vatnasvæði breytist listinn mikið. Þá sker Urriðafoss sig úr með mesta veiði á hverja stöng, eða 325 laxa á stöng. Þar á eftir koma Miðfjarðará (260 laxar á stöng) og Haffjarðará (257 laxar á stöng) en þar eru komnar lokatölur, ólíkt því sem er í Miðfirði og Urriðafossi. Elliðaárnar eru í fjórða sæti, eins og staðan er núna (240 laxar á stöng) en þær komast ekki inn á topp tíu listann yfir heildarveiði. Selá í Vopnafirði er í sjötta sæti (219 laxar á stöng) en það byggir á tölum frá 12. september. Eystri-Rangá er í sjöunda sæti (207 laxar á stöng) en þar er enn nokkuð eftir af veiðitímanum. Affallið og Ytri-Rangá með Hólsá koma næstar (199 laxar á stöng).
Hér eru svo nokkrar til viðbótar. En rétt er að hafa í huga að þessar tölur geta breyst þegar lokatölur liggja fyrir.
Þverá/Kjarrá 175 laxar á stöng
Laxá í Dölum 161 laxar á stöng
Langá 126 laxar á stöng
Grímsá 123 laxar á stöng
Norðurá 112 laxar á stöng
Laxá í Kjós 112 laxar á stöng
Hér er hægt að fara inn á töfluna á angling.is þar sem sjá má nýjustu veiðitölur:
http://angling.is/is/veiditolur/
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |